Frá framkvæmdastjóra og stjórn
Það kom að því að veðurguðirnir yrðu örlátir við okkur Sprettara. Ljómandi veður núna síðla vors sem hefur glatt menn og ferfætlinga. Margir að undirbúa sleppitúra og vaxandi fjöldi þeirra sem eru með nokkra til reiðar.
Umferð um svæðið og reiðgötur vaxandi en til allrar lukku er fjölbreytni mikil í reiðleiðum og allt gengið vel. Margir hafa nýtt sér nýja Grunnuvatnaleið sem viðbót við allt það sem Heiðmörkin og umhverfið hér í kring býður uppá. Mótahald vorsins gekk vel þökk sé einvala liði sem sá um framkvæmd.
Framkvæmdastjóri og stjórn Spretts þakkar félagsmönnum fyrir þetta tímabil. Við látum þetta fréttabréf vera það síðast í bili og tökum upp þráðinn að nýju þegar næsta tímabil hefst. Bestu þakkir til ykkar allra fyrir samstarfið.
Íþróttamót
Íþróttamót var haldið 16.-19. maí og þátttaka ljómandi góð. Það er mikil stemming á mótum sem þessum þegar líður nær vori. Hross komin í toppstand og knapar líka. Við þökkum þeim sem stóðu að þessu móti, einvala lið og vel skipulagt. Það var mikill samhugur hjá félagsmönnum að halda gott mót og er öllum þakkað hjartanlega sem komu að skipulagi og utanumhaldi. Án öflugra sjálfboðaliða er ekki hægt að standa að mótahaldi sem þessu.
Úrslit mótsins má sjá í heild sinni á vef okkar: http://sprettarar.is/frettir/1790-nidhurstoedhur-opna-ithrottamots-spretts-2019
Gæðingamót
Glæsilegt gæðingamót Spretts fór fram á 31.05 og 01.06. Margar glæsilegar sýningar sáust í öllum flokkum mótsins. Knapar í yngri flokkum vorum einstaklega vel ríðandi og frábærara sýningar sáust. Það verður heldur betur gaman að fylgjast með þessum knöpum þegar fram líða stundir. Gæðingur mótsins að þessu sinni var valinn Kolfinnur Magnúsar Einarssonar frá Kjarnholtum sem vann A-flokkinn í ár. Knapi á Kolskegg var Daníel Jónsson.
Veitt voru verðlaun í minningu Jónínu í Topphestum en þau verðlaun eru veitt knapa í yngri flokkum sem mætir til keppni á vel hirtum hesti og sýnir góða reiðmennsku. Handhafi þessarar verðlauna var í fyrra Guðný Dís Jónsdóttir. Í ár var það litla systir hennar, Elva Rún Jónsdóttir, sem hampaði verðlaununum en hún keppti í barnaflokki á Roða frá Margrétarhofi. Þess má geta að í fyrra var Guðný Dís einnig á Roða frá Margrétarhofi.
Þar að auki var Svansstyttan veitt, en hún er veitt þeim knapa sem klæðist félagsbúning og þykir ávallt til fyrirmyndar hvað varðar prúðmannlega reiðmennsku, klæðaburð og hirðingu hests, utan vallar sem innan. Að þessu sinn hlaut Bríet Guðmundsdóttir Svansstyttuna en hann keppti á Kolfinni frá Efri-Gegnishólum í ungmennaflokki.
Öll frekari úrslit má sjá á síður félagsins: http://sprettarar.is/frettir/1789-nidhurstoedhur-i-opna-gaedhingamoti-spretts-2019. Mótsnefnd er þakkað fyrir einstaklega gott utanumhald og framkvæmd.
Ógreidd félagsgjöld
Töluvert er enn um ógreidd félagsgjöld. Enn og aftur biðlum við til knapa sem eru að nýta sér svæðið að greiða félagsgjöldin. Félagsgjöld eru nausynleg félaginu til að standa straum af föstum kostnaði.
Rekstarhringur Spetts
Vaskir Sprettarar hafa tóku höndum saman og endurvöktu rekstarhring Spretts í samráði við stjórn og framkvæmdastjóra. Fyrirkomulag var skýrt og men skráðu sig á tíma í lifandi skjal sem er á facebook síðu hópsins. Allt gekk þetta vel og hrossin fljót að átta sig á rekstrarhringnum. Við þökkum þeim sem stóðu að þessu framtaki fyrir skipulag og utanumhald. Opnar og skemmdar rúllur á rúllusvæði Er nokkur að gleyma að henda ónýtum og opnum rúllum á rúllusvæði?
Það eru þarna nokkrar illa frágengnar og gataðar rúllur sem á eftir að farga. Þeir sem eiga hlut að máli eru vinsamlegast beðnir að taka rúllurnar af svæðinu sem allra fyrst.
Beitarhólf
Mikill áhugi var hjá Spretturum fyrir beitarhólfum nú í vor þegar kom að úthlutun. Dregið var um 100 hólf. Ekki tókst að úthluta til allra sem þess óskuðu. Við erum stolt af því að geta settu upp þessu hólf til útleigu, það eru fá hestamannafélög sem bjóðu uppá þjónustu sem þessa. Við eigum enn eftir svæði sem hægt er að skipta upp og girða. Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að setja sig í samband við Magnús Benediktsson framkvæmdastjóra. Setja þarf upp lítinn flokk sjálfboðaliða til að ljúka þeirri vinnu. Öll viðrunarhólf lúta sömu reglu, þau eru ætluð til útiveru hrossa okkar yfir daginn. (Ekki er leyfilegt að hafa hross í hólfunum yfir nótt). Þegar hólf eru ekki lengur í notkun og menn hafa sleppt hrossum væri gott að senda post á framkvæmdastjóra.
Þökkum Spretturum fyrir goða umgengi og að loka alltaf hliðum eftir notkun.
http://sprettarar.is/frettir/1770-umsoknir-um-beitarholf-sumaridh-2019
ATH! Óheimilt er að setja upp beitarhólf á svæði Spretts nema í samráði við framkvæmdastjóra.
Kynbótasýningar Spetts
Nú eru hafnar kynbótasýningar í Spretti. Tvær vikur eru áætlaðar í kynbótasýningar á félagssvæði Spretts á vegum RML. Fyrri vikan er 3.-7. júní sem endar með yfirlit allra hrossa þann 6. júní og sú seinni vikuna 10. til 14. júní sem endar einnig með yfirliti síðasta daginn. Þessar kynbótasýningar hafa alla jafna verið vel sóttar af hestum og mönnum og verður gaman að fylgjast með hvaða stórstjörnur koma fram í ár. Veðurspáin er góð þessa dagana og menn duglegir að vökva völlinn og huga að aðstæðum sem eru til fyrirmyndar hér í Spretti.
Hrossum sleppt
Við óskum öllum góðrar ferðar sem eru að fara í sleppitúra næstu dagana. Fjöldi hestamanna verður á ferðinni næstu helgi og viðbúið að það fækki mikið í hverfinu. Spretta hefur verið með eindæmum góð víða um land og því viðbúið að það sé kröftugt gras sem bíður hrossanna.
Mótahald í sumar
Þeir Sprettarar sem ætla að taka þátt í mótum sumarsins er óskað góðs gengis. Það eru fjölmörg mót í sumar sem væntanlega verða vel sótt. Við, ásamt hestamannafélögum á Stór-Reykjavíkursvæðinu stöndum að Íslandsmóti yngri og eldri flokka dagana 03.07-07.07. Á mótum sem þessu þarf fjöldan allan af sjálfboðaliðum til að standa vaktina. Þeir sem eiga lausa stund til að vinna við hin ýmsu störf er bent á að hafa samband við Arnhildi Halldórsdóttur í gsm: 861-1172 og netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða Lilju Sigurðardóttur í síma: 663-2603 og netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Við þurfum vaska sveit sjálfboðaliða til að manna allar vaktir. Það er virkilega gaman að taka þátt í framkvæmd á svona móti og hvetjum við alla sem eiga lausa stund að bjóða sig fram. Æskilegt er að sem flestir komi að þessu til að álagið verði sem minnst á hvern og einn.
Arnarfell
Við erum svo lánsöm að vera með einn vinsælasta veislusal landsins. Mikið verður um að vera í salnum í sumar. Við þökkum hestamönnum fyrir að virða það að ríða ekki um malbikið fyrir framan salinn.