Hið vinsæla Kvennatölt er hafið í Samskipahöllinni og þar er mikið um dýrðir í dag. Mótið í ár er í boði Mercedes-Benz og er keppt í fjórum styrkleikaflokkum að venju. Forkeppni gengur vel og er hægt að fylgjast með lifandi niðurstöðum í gegnum vefsíðuna sprettarar.is, en hestamenn eru ekki síður hvattir til að fjölmenna í höllina til að sjá prúðbúnar konur á glæstum gæðingum keppa. Umgjörðin er ekki síður glæsileg og til mikils að vinna, en sigurvegarar fá peningaverðlaun, folatolla, gripi frá SIGN og fleira og allir keppendur fara heim með glaðning. Einnig eru valin glæsilegustu pörin í hverjum flokki og fá þeir knapar vikupassa á landsmót í verðlaun.
Boðið verður upp á steikarhlaðborð um miðjan daginn og tilvalið að skella sér í höllina og fá sér gott að borða eftir útreiðar dagsins, en hlaðborðið hefst kl. 15:00. Þá hefjast B úrslitin kl. 15:45 og í framhaldinu A-úrslit í öllum flokkum.
Aðgangur að mótinu er ókeypis og allir velkomnir – endilega rennið við í Spretti í dag og verið með í gleðinni á 15 ára afmæli Kvennatöltsins.