Miðvikudagskvöldið 6. apríl verður afar fróðlegt fyrir hrossaræktendur og allt áhugafólk um íslenska hestinn en þá mun dr. Þorvaldur Árnason fjalla um ræktun afrekshestsins og dr. Guðrún Stefánsdóttir kynna helstu niðurstöður úr doktorsverkefni sínu sem hún kláraði á síðasta ári og fjallar um líkamlegt álag á íslenska hestinn við mismunandi kringumstæður.
Í fyrirlestri Guðrúnar verður fjallað um líkamlegt álag á hross í kynbótasýningu og hver áhrifin af kynferði og aldri eru. Kynntar verða rannsóknarniðurstöður um samanburð á líkamlegu álagi á tölti og brokki á sama hraða og hvert álagið er á 100 m flugskeiði, svo og hvaða áhrif þungi knapa hefur á líkamlegt álag á tölti. Hérna er um afar fróðlegar niðurstöður að ræða, ekki síst fyrir þá sem hafa þjálfun hesta til ýtrustu afreka í huga.
Þorvaldur mun svo fjalla um ræktun afrekshestsins og á hvern hátt ræktun búfjár er í eðli sínu samvinnuverkefni, hvernig hinn einstaki ræktandi kemur inn í þá mynd og hvernig ræktandinn getur hámarkað líkurnar á árangri.
Staður: Samskipahöllin í Spretti.
Tími: Miðvikudagskvöldið 6. April - Húsið opnar klukkan 19.30 og fyrirlestrarnir byrja klukkan 20:00.
Kaffiveitingar.
Fróðlegt kvöld með okkar fremsta vísindafólki sem enginn má láta fram hjá sér fara.
Hestamannafélagið Sprettur, Skeiðfélagið og Ráðgjafamiðstöð Landbúnaðarins.