SAMSKIPAHÖLLIN OG SAMSKIPAVÖLLURINN MEÐ NÝJUM SJÖ ÁRA SAMNINGI SPRETTS OG SAMSKIPA
Hestamannafélagið Sprettur og Samskip hafa undirritað nýjan samstarfssamning sem felur í sér að Samskip verða aðalstuðningsaðili félagsins næstu sjö árin. Samningurinn felur meðal annars í sér að reiðhöll Spretts verður hér eftir nefnd Samskipahöllin og keppnisreiðvöllur félagsins utanhúss Samskipavöllurinn.
Samskip hafa um nokkurt skeið látið til sín taka í íslenskri hestamennsku og um árabil verið einn aðalstuðningsaðili Landsmóts hestamanna. Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa segir það því vera rökrétt skref að ganga til samstarfs við Sprett, sem er með afar kröftuga starfsemi og frábæra aðstöðu sem Samskip nú tengjast.
„Það er okkur mikið ánægjuefni að gerast aðalstuðningsaðili Spretts og við tjöldum ekki til einnar nætur heldur gerum samning til loka árs 2021. Við hlökkum til samstarfsins, óskum Spretti til hamingju með þessa glæsilegu aðstöðu og metnaðarfull áform. Við hjá Samskipum þekkjum vel samskonar baráttu og vitum að hér er valinn maður í hverju rúmi, frábærir hestar og mikill metnaður," segir Pálmar Óli.
Hermann Vilmundarson, varaformaður Spretts, segir tíðindin ánægjuleg. „Sprettur er það hestamannafélag sem vex hvað hraðast hér á landi og eftir stofnun árið 2012 þegar Gustur og Andvari sameinuðust, hefur ekkert lát verið á gróskunni. Metnaðurinn hér er mikill og þessi samningur undirstrikar að Sprettur er á réttri leið með á annað þúsund félagsmenn og gríðarlega öflugan samstarfsaðila í Samskipum," segir Hermann.
Það voru Hermann Vilmundarson, varaformaður Spretts og Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa sem undirrituðu samninginn í Samskipahöllinni á Kjóavöllum í dag.