Nú að loknu vel heppnuðu Íslandsmóti í hestaíþróttum er þakklæti efst í huga. Þakklæti til allra Sprettaranna sem tóku höndum saman við undirbúning og framkvæmd mótsins.
Það er alveg ljóst að mannauðurinn í Spretti er mikill og það kom berlega í ljós þegar kallað var eftir ýmissi aðstoð við undirbúning og framkvæmd bæði Íþróttamóts sem haldið var um miðjan júni og svo nú fyrir Íslandsmótið.
Án sjálfboðaliða væri ekki mögulegt að halda uppi öllu því mikla félagsstarfi sem er í Spretti né væri hægt að taka að sér svona stórviðburð sem Íslandsmót í hestaíþróttum er.
Okkur telst til að til að þegar mest var á nýliðnu móti vorum við með 40-50 manns í vinnu á hverjum tíma. Þetta voru allt sjálfboðaliðar úr Spretti.
Við Sprettarar erum búin að halda tvö stórmót í röð með samtals 1300 skráningum. Bæði mótin hafa tekist afburða vel og við getum stolt sagt að við kunnum að halda stórmót.
Svæðið okkar að Kjóavöllum er frábært og alveg ljóst að það hefur nú sannað sig sem eitt besta mótasvæði landsins.
Við Sprettarar viljum nota tækifærið til að þakka öllum keppendum og aðstandendum þeirra fyrir frábært samstarf. Stundvísi keppenda hjálpaði mjög til við að allar tímasetningar héldust út allt mótið.
Stjórn og framkvæmdastjóri félagsins vilja þakka þeim fjölmörgu sem komu að undirbúningi og framkvæmd mótsins bæði Spretturum og öðrum sem komu að framkvæmd mótsins með okkur.
Sveitafélögin okkar og þá sérstaklega áhaldahúsin í Kópavogi og Garðabæ fá líka þakkir fyrir aðstoð við undirbúninginn.
Áfram Sprettur
f.h. stjórnar og framkvæmdastjóra
Linda Gunnlaugsdóttir
Formaður Spretts