Sprettarar fjölmenntu á Reykjavíkurmeistaramót Fáks í síðastliðinni viku og árangurinn var vægast sagt frábær. Við áttum fulltrúa í flestum greinum nema í ungmennaflokkunum en sá flokkur er frekar fámennur hjá okkur í ár. Ljóst að Sprettarar koma vel undan vetri og eru tilbúin á keppnisbrautina í sumar.Ef tekinn er saman árangur þeirra sem náðu í úrslit eftir forkeppnina þá eru þetta helstu niðurstöður – vona að enginn gleymist í þessari samantekt en biðjum fólk að taka viljan fyrir verkið.
Sprettarar í barnaflokki náðu árangri sem tekið er eftir.Kristófer Darri Sigurðsson keppti í flestum greinum og náði frábærum árangri. Í nokkrum greinum keppti hann upp fyrir sig þar sem ekki var boðið upp á barnaflokka í þeim greinum. Árangurinn er enn glæsilegri ef það er tekið með í reikninginn.
Kristófer lenti í:
2.sæti í Gæðingaskeiði unglinga á Vorboða frá Kópavogi
3. sæti í Tölti T3 barnaflokki á Lilju frá Ytra-Skörðugili
2. sæti í Tölti T2 unglingaflokki á Vorboða frá Kópavogi
6. sæti í Fimmgangi unglingaflokki á Vorboða frá Kópavogi – kom efstur inn eftir forkeppnina
4. sæti í Fjórgangi barnaflokkur á Lilju frá Ytra-Skörðugili – reið sig uppúr B-úrslitum
Hulda María Sveinbjörnsdóttir stóð sig frábærlega á Skyggni sínum frá Álfhólum kom efst inn í úrslit í Tölti T7 barnaflokki og endaði svo í 2. Sæti í úrslitunum á sunnudaginn. Hulda María og Skyggnir stóðu sig svo líka frábærlega í fjórgangi og lentu þar í 8.sæti.
Sunna Dís Heitman gerði góða ferð á mótið. Reið sig úr B-úrslitum í Tölti T7 og gerði sér svo lítið fyrir og vann flokkinn á Drymbli frá Brautarholti.
Haukur Ingi Hauksson og Lóa frá Hrafnkelsstöðum stóðu sig einnig frábærlega en þau hlutu 3-4 sætið í Tölti T7.
Sigurður Baldur Ríkharðsson átti frábært mót og var í B-úrslitum Tölti T3 á Auðdísi frá Traðarlandi og gerði harða atlögu að því að komast í A-úrslit. Sigurður og Auðdís lentu í 9 sæti sem er flottur árangur.
Hafþór Hreiðar Birgisson var fulltrúi Spretts í úrslitum unglingaflokks en hann komst í B-úrslit í Tölti T3 og endaði þar í 10 sæti. Hafþór var einnig í 10 sæti í fjórgangi V2, unglingaflokki. Flottur árangur í mjög sterkum flokki.
Í skeiðgreinunum áttum við flotta fulltrúa – búið að nefna árangur Kristófers hér að ofan en auk hans þá unnu þeir Erling Ó Sigurðsson og Seðill frá Laugardælum Gæðingaskeið 1 flokkur og Jóhann Ólafsson og Gnýr frá Árgerði unnu Gæðingaskeið 2 flokkur.
Í Meistaraflokki lentu þeir Jóhann Ragnarsson og Atlas frá Lýshóli í 9 sæti í Gæðingaskeiði.
Í kappreiðaskeiði lenti þeir Erling og Hnikar frá Ytra-Dalsgerði í 3.sæti í 150m skeiði og Ævar Örn Guðjónsson og Vaka frá Sjávarborg gerðu sér lítið fyrir og lentu í 1.sæti í 250m skeiði.
Í töltgreinunum áttum við flotta fulltrúa í eldri flokkunum.
Jóhann Ólafsson og Berglind frá Húsavík lentu í 2.sæti í Tölti T2 og í 3.sæti áttu þau Gunnar Már Þórðarson og Röst frá Flugumýri.
Sverrir Einarsson og Kraftur frá Votmúla lentu í 5.sæti í Tölti T3
Jóhann Ólafsson og Stjörnufákur frá Blönduósi lentu í 6.sæti í Tölti T3 – voru óheppnir þar sem fór undan Stjörnufáki á ögurstundu en þá leiddu þeir úrslitin.
Í T7 opnum flokki áttum við 2 fulltrúa í A-úrslitum. Karen Sigfúsdóttir og Kolskeggur frá Þúfu í Kjós lentu í 2-3 sæti og Linda Björk Gunnlaugsdóttir og Snædís frá Blönduósi lentu í 5 sæti.
Brynja Viðarsdóttir og Kolbakur frá Hólshúsum voru 0,05 frá því að ríða sig upp í A-úrslit í Tölti T3 en þau enduðu í 7 sæti.
Jóhann Ragnarsson og Kvika frá Leirubakka voru svo fulltrúar Spretts í B úrslitum Tölt T1 í Meistaraflokki og stóðu sig vel.
Í fimmgangi 1. flokki riðu þeir Ríkharður Flemming og Seyður frá Hafsteinsstöðum í A úrslitum og enduðu í 7. Sæti.
Í fimmgangi 2.flokki hreppti Petra Björk Mogensen á Nökkva frá Lækjarbotnum 3.sætið. Þetta var fyrsta keppni Petru í fimmgangi og örugglega ekki sú síðasta. Í 4.sæti voru þeir félagar Jóhann Ólafsson og Gnýr frá Árgerði.
Sprettur átti svo fjölda fulltrúa í úrslitum í 2 flokki í fjórgangi og einn fulltrúa í 1 flokki fjórgangi.
Jón Ó. Guðmundsson og Ás frá Hofstöðum, Garðabær voru 0,10 frá því að ríða sig upp í A-úrslitin í fjórgang 1 flokk og enduðu í 7 sæti með mjög flotta einkunn.
Í 2 flokki í fjórgangi áttum við sex Sprettara í úrslitum. Petra Björk Mogensen og Sigríður frá Feti lentu í 4.sæti, Brynja Viðarsdóttir og Kolbakur frá Hólshúsum í 5.sæti, Sverrir Einarsson og Kraftur frá Votmúla 2 í 7.sæti, Elín Deborah Guðmundsdóttir og Jökull frá Hólskoti í 8.sæti, Karen Sigfúsdóttir og Kolskeggur frá Þúfu í Kjós í 9.sæti og Jóhann Ólafsson og Stjörnufákur frá Blönduósi í 12.sæti.
Við óskum öllum þessum knöpum til hamingju með árangurinn
Hér að neðan eru myndir af Sigurði Baldri, Sunnu Dís, Huldu Maríu og Hauk Inga. Efri myndinn með fréttinni er af Kristóferi Darra.