Hin geysivinsæla stórsýning „Stóðhestaveislan" fer fram í Sprettshöllinni í Kópavogi laugardaginn 11. apríl nk. kl. 20. Uppselt hefur verið á Stóðhestaveisluna frá upphafi og er stemmingin í ár síst minni. Forsala miða er hafin í Líflandi, Ástund og Hestum og mönnum í Reykjavík og Baldvin og Þorvaldi á Selfossi. Miðaverð er kr. 3.900 og fylgir hin veglega stóðhestabók miðanum að venju.
Nú þegar liggur fyrir að frábær hestakostur mun mæta, bæði eldri og þekktari hestar, í bland við ungar vonarstjörnur. Heiðurshestur sýningarinnar að þessu sinni er Sær frá Bakkakoti og mun hann heiðra samkomuna ásamt afkvæmum sínum. Þá mun annar góður afkvæmahestur koma vestan úr Reykholtsdal, en Sólon frá Skáney mætir ásamt afkvæmum sínum. Landsmótssigurvegarinn Loki frá Selfossi kemur fram ásamt eiganda sínum Ármanni og hinn magnaði Hrafn frá Efri-Rauðalæk verður sýndur af Daníel Jónssyni. Hinn ungi Steggur frá Hrísdal sem slegið hefur í gegn og byrjaði keppnisferilinn með látum um daginn mætir ásamt Siguroddi Péturssyni og hestagullið Kolskeggur frá Kjarnholtum verður sýndur af Gísla Gíslasyni. Þá mætir hinn kraftmikli Krókus frá Dalbæ og mátar tíu skeiðið sitt við sprettfærið í höllinni og Jakob Sigurðsson sýnir Herkúles frá Ragnheiðarstöðum, en sá á nokkrar níurnar í dómi.
Fleiri hestar verða kynntir til leiks jafnt og þétt fram að sýningu. Tryggið ykkur miða á þennan stærsta innahússviðburð hestamennskunnar sem allra fyrst!
Mynd:
Steggur frá Hrísdal og Siguroddur Pétursson. Ljósmynd: Kolla Gr.