Brokk-kórinn undir stjórn Magnúsar Kjartanssonar hefur nú undirritað samkomulag um samstarf við Framkvæmdanefnd Heimsmeistaramóts íslenska hestsins sem haldið er í Herning í Danmörku 2015.
Samkomulag þetta gengur út á þátttöku kórsins í opnunar- og lokahátíð mótsins ásamt því að koma fram á öðrum tónlistarviðburðum sem skipulagðir eru í tengslum við mótið.
Ísland er í samnorrænum hópi sem stendur að Heimsmeistaramótinu í Herning á næsta ári en þessi mót eru haldin annað hvert ár í Evrópulandi utan Íslands.Mót sem þessi eru alþjóðlegur stórviðburður með þátttöku fólks frá um 20 löndum og getur fjöldi gesta orðið um 15.000 manns.
Á aðventutónleikum Brokk-kórsins sem haldnir eru í Seljakirkju nk. fimmtudagskvöld kl. 20:00 er líka á dagskrá að veita nánari upplýsingar um HM2015 í Herning, hvar hægt er að tryggja sér miða á mótið, hagstætt flugfar og gistingu svo eitthvað sé nefnt. Þá verða sýnd kynningarmyndbönd bæði fyrir Heimsmeistaramótið og einnig sérstök kynning frá kórnum sjálfum.
Hvetjum alla hestamenn og aðra til þess að mæta í Seljakirkju nk. fimmtudagskvöld – næla í jólastemningu og kynna sér Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Herning 2015.