Stjórn Landssambands hestamannafélaga hefur ákveðið að ganga til viðræðna við hestamannafélagið Sprett um að halda Landsmót á Sprettssvæðinu 2016 eins og sjá má í eftirfarandi tilkynningu.
Tilkynning frá Landssambandi hestamannafélaga.
Landssamband hestamannafélaga hefur ákveðið að ganga til viðræna við hestamannafélagið Sprett að halda Landsmót árið 2016 og hestamannafélagið Fák um Landsmótið 2018. Þetta kemur fram í tilkynningu sem stjórn LH sendi frá sér rétt í þessu:
"Stjórn Landssambands hestamannafélaga komst að þeirri niðurstöðu á fundi þann 7. október 2014 að forsendur fyrir því að Landsmót 2016 væri haldið á Vindheimamelum í Skagafirði væru ekki ekki fyrir hendi. Forsvarsmönnum Skagfirðinga var tilkynnt um þessa niðurstöðu með formlegum hætti á símafundi 14.október 2014.
Á fundi stjórnar Landssambands hestamannafélaga í dag 16. október 2014 var ákveðið samhljóða að ganga til viðræðna við hestamannafélagið Sprett varðandi Landsmót 2016, og við hestamannafélagið Fák um Landsmót 2018.
Stjórn Landssambands hestamannafélaga vonast til þess að um þetta muni ríkja sátt á meðal áhugamanna um íslenska hestinn."
Í bréfi, sem sent var Jónínu Stefánsdóttur talsmanns Gullhyls ehf, tíundar stjórnin ástæður þess að þeir ákveði að slíta viðræðum við Gullhyl um að halda Landsmót 2016 á Vindheimamelum í Skagafirði:
"Í fyrsta lagi lítur stjórn LH þar til reynslu af fyrri landsmótum og þá fyrst og fremst af síðasta landsmóti sem haldið var á Hellu nú í sumar. Í því ljósi telur stjórnin að aðstaðan á Vindheimamelum sé ekki fullnægjandi og of mikill áhætta sé því samfara að halda mótið þar.
Í öðru lagi telur stjórn LH að við staðarval landsmóta þurfi að taka aukið tillit til möguleika mótshaldara til að afla tekna og lágmarka kostnað. Markmiðið hljóti þannig ávallt að vera að mótin eflist milli ára og þjóni þannig tilgangi sínum.
Í þriðja lagi hefur stjórn LH horft til niðurstöðu þeirra vinnuhópa sem starfað hafa á vegum LH og annarra hagsmunaaðila. Megin niðurstaða þeirra vinnuhópa styður þá ákvörðun sem hér er kynnt. Ákvörðun stjórnar LH styðst jafnframt við niðurstöðu Hjörnýjar Snorradóttur í mastersritgerð hennar sem ber heitið "Stefnumótun - Landsmót hestamanna. Raundæmisrannsókn"
Í fjórða lagi telur stjórn LH óhjákvæmilegt að taka tillit til þeirrar umræðu sem hefur að undanförnu farið fram meðal hestamanna. Sú skoðun gerist háværari að það þjóni ekki hagsmunum hestamanna að mótið fari fram á Vindheimamelum árið 2016.
Með hliðsjón af framangreindu hefur stjórn LH ákveðið að slíta viðræðum og ganga ekki til samninga um að næsta landsmót verið haldið á Vindheimamelum árið 2016. Þess í stað mun stjórn LH ganga til samninga við rekstraraðila sem á betri möguleika á að uppfylla kröfur sem í dag er nauðsynlegt að gera til að tryggja betur rekstargrundvöll slíks móts."