Nú þegar haustið er gengið í garð er hafinn undirbúningur fyrir fjörugt vetrarstarf hjá Hestamannafélaginu Spretti. Stjórn Spretts hefur fundað vikulega frá því um miðjan ágúst enda að mörgu að huga í stóru félagi. Meðal þess sem verið hefur á borði stjórnarinnar er undirbúningur fyrir Landsþing LH sem haldið verður á Selfossi 17-18 október n.k. Á Landsþingi eigum við 13 fulltrúa og þessir fulltrúar hafa nú þegar hist ört til undirbúnings á tillögum til þingsins sem skilað var inn 15 sept. Tillögurnar eru samtals sjö og fjalla m.a. um reiðvegi, nýliðun, flokkakerfi í keppnum, Landsmót, markaðskönnun osfrv.
LH óskaði einnig eftir umsóknum um að halda Íslandsmót fullorðinna og yngri flokka árin 2015 og 2016. Sprettur hefur formlega sent inn umsókn um að halda þessi mót.
Á fimmtudaginn var skilaði svo Sprettur inn umsókn um að halda Landsmót 2018. Umsóknin var afhent og kynnt í húsakynnum LH í Laugardalnum fyrir framkvæmdastjóra og hluta stjórnar LH. Umsóknin er mjög spennandi og metnaðarfull enda teljum við Sprettarar að við höfum yfir að ráða einni bestu aðstöðu á landinu til að halda stór hestamannamót. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer.
Undirbúningur fyrir vetrarstarfið er að fara á fullt og nú á næstu vikum mun stjórnin kalla saman nefndir til að fá kynningu á starfi nefndanna fyrir veturinn.
Starf félags eins og Spretts byggist alfarið upp á fórnfúsu starfi sjálfboðaliða. Sprettur hefur verið mjög heppið með sjálfboðaliða og félagsstarfið á fyrsta formlega starfsári Spretts s.l. vetur var mjög gott . En betur má ef duga skal og viljum við eindregið hvetja félagsmenn að gefa kost á sér í nefndir félagsins.
Nefndir félagsins eru fjölmargar m.a. mótanefnd, reiðveganefnd, fræðslunefnd, æskulýðsnefnd, umhverfisnefnd, hrossaræktarnefnd, kvennatöltsnefnd, karlatöltsnefnd, firmakeppnisnefnd, tölvunefnd, kvennadeild, metamótsnefnd, laganefnd og svo mætti lengi upp telja.
Í þessum nefndum eru unnin mjög fjölbreytt störf sem öll eru mjög mikilvæg félaginu enda bera þau uppi starfsemi félagsins okkar. Allar frekari upplýsingar um nefndir er að fá hjá formönnum nefndanna eða hjá Magga Ben framkvæmdastjóranum okkar.
Veislusalurinn okkar í Spretti er kominn á kortið og mikið hefur verið um viðburði og veislur þar nú í sumar og haust. Mikið er um bókanir enda salurinn mjög flottur, vel staðsettur og síðast en ekki síst þá er utanumhaldið um hann mjög gott.
Maggi Ben heldur þétt utan um daglegan rekstur félagsins og er á kafi nú í að undirbúa vetrarstarfið með nefndunum og stjórn.
Metamótsnefndin hélt eitt glæsilegast mót ársins síðla sumars. Undirbúningur fyrir svona stórt mót er mjög mikill og hafði nefndin í nægju að snúast. En þar eru reynsluboltar á ferð og tókst mótið mjög vel. Þátttakan var mjög góð, sýningar flottar og stemmingin mikil. Á mótinu var notað við heimasmíðað mótakerfi – annað árið í röð – sem gerði það að verkum að mótið gekk skv. tímaplönum og upplýsingastreymið var óaðfinnanlegt.
Reiðveganefndin hefur verið í miklum framkvæmdum nú í byrjun hausts og reiðvegamerkingar sem nú eru komnar upp í hverfinu okkar eru frábærar og stór glæsilegar. Það er ljóst að við erum með best merktu reiðleiðir á landinu. Við þökkum reiðveganefndinni og ekki síst bæjarfélögunum fyrir veittan stuðning við verkefnið.
Kennsla við námið sem heitir Reiðmaðurinn verður í reiðhöllum Spretts í haust og vetur. Þetta er nám á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands og er metið til framhaldsskólanáms. Við bjóðum Reiðmanninn velkominn í reiðhallir okkar. Nú í lok október munum við halda félagsfund þar sem stjórnin mun fara yfir málefni félagsins, svara spurningum og kynna vetrarstarfið. Dagsetningin verður auglýst síðar.
Það er ljóst að mikið verður um að vera hjá Spretti í vetur, öflugt fræðslustarf, fjölbreytt námskeið og síðast en ekki síst fjörugt félagslíf.
Með kveðju
Stjórn Spretts