Ágætu Sprettarar.
Nú er sumarið að taka við og vetrardagskrá okkar lokið. Fjölmargir viðburðir hafa verið haldnir og er ótrúlega gaman að geta loksins hitt annað fólk eftir Covid ævintýrið.
Mikið verið um að vera í móthaldi hjá okkur. Þrennir vetrarleikar, 3 gangsmót, Blue Lagoon mótaröð, Karla og Kvennatölt, Firmakeppni og Áhugamannadeild Spretts. Þá var Dymbilvikusýningin endurvakin við mikinn fögnuð félagsmanna. Einnig hafa verið haldin opin æfingamót í fjórgang, tölti og fimmgang.
Þó nokkur fjölbreytileiki hefur verið í námskeiðahaldi og kennslu hjá félaginu. Einnig hafa Knapamerki og Reiðmaðurinn verið hjá okkur.
Nú eru framundan stærri mótin okkar. Íþróttamót Spretts verður nú um helgina og mikil skráning er á það. Gæðingamót Spretts verður í byrjun júní en það er úrtaka til LM sem verður á Hellu í júlí.
Til að halda svona stór mót þarf mikið af sjálfboðaliðum en ég vil ég hvetja þá sem geta og hafa áhuga á að taka þátt, að hafa samband.
Félagsstarfið sem hefur verið í lágmarki v/Covid er að færast í aukana. Nú höfum við geta verið með veitingasölu og gleðsskap þegar viðburðir hafa verið í Samskipahöllinni.
Þetta er gríðarlega mikilvægt í starfi félagsins og að geta nýtt veislusalinn sem gefur félaginu auknar tekjur. Mjög mikil eftirspurn hefur verið eftir veislusalnum fyrir hina ýmsu viðburði.
Farið var í að endurbæta salinn en hann var málaður, skipt um parket og settar nýjar gardínur ásamt fleiru. Gulla Jóna og Ágústa hafa séð um salinn með miklum sóma.
Stöðugt er verið að spá í félagssvæði okkar og að bæta aðstöðuna sem allra best fyrir keppni og almennar útreiðar. Vellir og reiðgötur eru endalaus verkefni sem við höfum lagt mikla vinnu í.
Einnig erum við í nokkuð góðum málum hvað gerði varðar en næst á dagskrá er að endurreisa stóra gerðið á Kjóavöllum.
Hafin er vinna við að setja WC og kaffistofu í Húsasmiðjuhöllina.
Mikil vinna hefur verið lögð í að útbúa viðrunarhólf fyrir félagsmenn og er verið að úthluta á milli 170-180 hólfum um þessar mundir.
Fundur var haldinn fyrir nokkrum vikum um landsmótsmál vegna LM sem verður hjá okkur 2024. Stjórn félagsins hefur verið að vinna í þessum málum og verið að undirbúa næstu skref.
Það er ljóst að þetta er ekki framkvæmanlegt nema Garðabær og Kópavogur komi að þessu með okkur en það eru þau skref sem verið er að stíga. Það torveldar etv hlutina að nú er verið að fara að kjósa nýjar forystur hjá báðum bæjarfélögunum og nýtt fólk verður í forystu þar. Við eru hinsvegar full bjartsýni á framhaldið.
Á næstu dögum verður tekin í notkun ný heimasíða sem er verið að útbúa fyrir félagið.
Starfið er að ganga vel hjá okkur þó eflaust megi alltaf eitthvað betur fara en gott væri að fá ábendingar frá félagsmönnum um það sem mætti betur fara og laga. Við erum öll að leggja okkur fram um að gera Hmf Sprett að góðu og skemmtilegu félagi en það gerum við ekki án ykkar. Mig langar sérstaklega að þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem starfað hafa jafnvel í áraraðir fyrir félagið í hinum ýmsu nefndum fyrir frábært starf en án ykkar væri þetta ekki að gera sig.
Starfsmenn félagsins Lilja, framkvæmdastjóri, Þórdís Anna, yfirþjálfari, Gunni bakari „alt mulig mann“ hafa staðið vaktina fyrir okkur og reynst vel.
Jóhanna Elka Geirsdóttir sem hefur séð um bókhald félagsins í nokkur ár lét af störfum í vetur og þökkum við henni kærlega fyrir samstarfið.
Sumarkveðja
Sverrir Einarsson, formaður