Eins og margir Sprettarar hafa örugglega orðið varir við þá hefur ýmislegt verið í gangi á félagssvæðinu okkar undanfarið.
Nú er búið að leggja reiðveg frá vesturenda Samskipahallarinnar og inn á hringinn utan um skeifuna (keppnisvöllinn) um leið var planið á bak við höllina lagfært og ef við ætlum að skeiða eða hleypa í gegnum höllina gerum við það í vesturátt, það mun koma lýsing bæði á enda hallarinnar og með fram þessum nýja reiðvegi okkar.
Búið er að gera plan fyrir gerði við Heimsenda, stutt er í að við getum kallað saman Sprettara til að setja niður hólka og stilla af staura fyrir nýju tré gerði sem kemur þar, einnig verður hringgerði sett upp á þessu plani, lýsing verður við bæði þessi gerði.
Fyrir stuttu settu vaskir Sprettara niður gerði sunnan við bílaplanið hjá Samskipahöllinni þar mun einnig koma hringgerði og lýsing verður sett upp við þessi gerði. Möl verður sett fljótlega í gerðin og þá verður hægt að byrja að nota þau.
Í haust voru tré og runnar gróðursett í mön meðfram Hestheimum, götunni sem liggur að Samskipahöllinni og stefnt er að halda áfram í suður átt nk vor að fegra umhverfi okkar. Undanfarið hafa menn frá Kópavogsbæ unnið að lagfæringu á svæðinu meðfram Markaveginum þegar ekið er niður frá Rjúpnatorgi inn á félagssvæði okkar.
Einnig hafa starfsmenn Kópavogsbæjar gert gangskör í að taka til á kerrustæðinu fyrir framan Tröllakór, mikið rusl hafði safnast þar sl ár og búið er að fjarlægja mest allt.
Ég hvet félagsmenn til að halda snyrtilegu í kringum húsin sín, laust plast og drasl á ekki að sjást á svæðinu okkar. Þeir sem eiga rúllur eða bagga á baggastæðinu eru beðnir um að fylgjast með sínum stæðum og sjá til þess að þar flaksi ekki plast.
Stóra gerðið sem er vestast á Kjóavöllunum (gamla Andvarasvæðinu) þarfnast aðhlynningar, skipta þarf um staur/a í vesturendanum og laga fleiri spýtur í því, það þarf að gera aksturshlið á gerðið svo hægt sé að koma tækjum þar inn, td til að bæta við möl. Ég leita hér með til félagsmanna sem vilja taka þetta verk að sér. Ég vonast líka til að við getum bætt lýsinguna við þetta gerði. Nýtt hringgerði var sett upp við hliðina á stóragerðinu sl vor og nýtist það félagsmönnum vel.
Vonandi getum við fljótlega byrjað framkvæmdir í Húsasmiðjuhöllinni, þar ætlum við að rífa niður hluta af áhorfendapöllunum og smíða kaffistofu þar og setja upp salerni. Ég held að með þessari breytingu á höllinni snarbætum við aðstöðuna okkar, td þegar helgarnámskeið eða Reiðmaður er í höllini þá getur fólk setið í yl inni á kaffistofu og fylgst með því sem er að gerast í kennslustundinni.... jú pössum uppá 2ja metra regluna ;-)
Starfsmenn Garðabæjar hafa unnið að því að merkja reiðleiðir, í dag var búið að setja niður setja niður 23 undirstöður fyrir skilti og 20 skilti "reiðvegur" komin upp eins eru 10 hjólreiðabann skilti kominn upp. Þannig í dag kl 16:00 þá voru bara 3 skilti eftir.
Verið er að hanna upplýsingaskilti sem koma við innkeyrslur í félagið, þar sem ýtrekað verður fyrir vegfarendum að þeir séu á athafnasvæði hestamanna, aðgát skuli sýnd, 30km hámarkshraði sé á svæðinu ofl
Vonandi koma menn frá Veitum fljólega og skipta um perur í ljósastaurunum sem ekki lýsa á Kjóavallahringnum okkar.
Búið er að kveikja ljósin við skeiðbrautina ofan í skeifunni, gott að geta farið niður í skeifuna á kvöldin og þjáfað þar ef fólk vill það.
Það er frábært að sjá hvað margir eru búnir að taka hesta á hús og fólk er duglegt að ríða út og þjálfa hrossin sín, við erum öll að ganga í gegnum skrýtna tíma og þá er nú aldeilis gott að eiga griðarstað í hesthúsinu og gleyma sér um stund með ferfættu vinum okkar. Mörg okkar bíða eftir því að komast aftur inn í reiðhallir okkar og vonandi gengur það eftir 17.nóv.
Ef að félagsmenn hafa einhverjar athugasemdir eða hugmyndir um hvernig við getum bætt umhverfið okkar þá er gott að fá tölvupóst frá ykkur. This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Höldum áfram hlúa að félaginu okkar og félagssvæðinu þannig verðum við öflugri heild.
Góðar stundir.
Lilja Sigurðardóttir.
Framkvæmdastjóri