Það er mikilvægt að hafa í huga og muna alltaf eftir því að allt okkar hrossatað sem berst frá félagsmönnum í Spretti sem nota taðgáma er notað í brýnt og fallegt landgræðsluverkefni sem kallast Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs. Þessi samtök vinna að því að stöðva gróður- og jarðvegseyðingu í Landnámi Ingólfs og styrkja vistkerfi svæðisins með því að koma af stað sjálfbærri gróðurframvindu með lífrænum áburði, eins og t.d. hrossataði.
Hrossatað er lífrænn og mikilvægur áburður og þess vegna er afar brýnt að allt hrossatað sem frá okkur kemur sé hreint og ómengað. Við hestamenn erum vinir náttúrunnar og viljum leggja okkar að mörkum í þetta landgræðsluverkefni.
Umsjónarmenn verkefnisins í sjálfboðavinnu sem eru félagsmenn í Spretti fara reglulega og skoða þetta svæði sem við tökum þátt í græða upp og það er því miður alltof of algengt að sjá þarna ýmiskonar rusl: heyrúlluplast, baggabönd og annan óþrifnað. Síðustu helgi vorum við að plokka og hreinsa svæði við Vigdísarvelli og sáum mikið af rusli frá okkur, en náðum sem betur fer góðri yfirborðshreinsun á svæðinu. Við höldum áfram að plokka og fylgjast með þessu því þarna berum við ábyrgð. Allir hestamenn verða að taka þátt í þessu og passa upp á þetta: Ekki henda rusli í taðþrær og ekki setja rusl í taðgámana! Flokkum, verum ábyrg, til fyrirmyndar og förum vel um landið okkar.