Ágætu Sprettarar
Við viljum láta ykkur vita af Fjallahjólakeppni sem er skipulögð á reiðstígakerfi okkar og verður haldin á morgun laugardag 26.sept. Töluverðar lokanir verða vegna þessa og er óhætt að segja að ekki sé tryggt að stunda útreiðir á þessum leiðum á meðan keppni stendur. Hér er tengill á viðburðinn. https://www.facebook.com/landsnetMTB/
Ekkert samráð var haft við hmf Sprett í þessari skipulagningu og undirbúningi. Hér að neðan birtum við bréf sem við sendum á Gunnar Einarsson bæjarstjóra Garðabæjar og bæjarráð Garðabæjar.
Bæjarráð Garðabæjar
b/t bæjarstjóra Gunnars Einarssonar
Garðatorgi 7
210 Garðabæ
Garðabæ 25. september 2020
Efni:
Varðar: samþykki bæjarráðs Garðabæjar til þess að nota reiðstíga til hjólreiðakeppni.
Vísað er til upplýsinga um samþykki bæjarráðs Garðabæjar, málsnúmer: 2007276 á erindi Meðbyrs ehf. fyrir skipulagningu tveggja almenningsíþróttaviðburða, fjallahjólakeppninnar Landsnets MTB og hlaupsins Eldslóðin, í landi Garðabæjar 25. og 26. september 2020. Hestamannafélagið Sprettur var upplýst um samþykki bæjarráðs á framangreindu með tölvupósti dags. 23. september frá Kára Jónssyni íþrótta-, tómstunda- og forvarnafulltrúa Garðabæjar til varaformanns hmf. Spretts eftir að félagið hafði spurst fyrir um það hvort rétt væri að leyfi hefði verið veitt til þess að nota reiðvegi til slíkrar keppni.
Í samtali áðurnefnds íþrótta-, tómstunda- og forvarnafulltrúa Garðabæjar við varaformann hmf. Spretts sem átti sér stað 23. september kom fram að fyrirsvarsmenn hjólreiðakeppninnar hafi við málsmeðferð vegna erindisins fullyrt að samráð hafi verið haft við hmf. Sprett um notkun reiðvega á félagssvæði Spretts til keppninnar. Var þetta ekki kannað nánar af hálfu Garðabæjar og trúnaður lagður á orð fyrirsvarsmanna keppninnar. Hér með skal það upplýst að rangt er að samráð hafi verið haft við hmf. Sprett um notkun reiðvega til keppni af þessum toga og það er jafnframt rangt að hmf. Sprettur eða nokkur á vegum félagsins hafi samþykkt notkun reiðvega undir keppni af þessum toga.
Rétt er að rekja með hvaða hætti hmf. Sprettur fékk fregnir af því að þriðji aðili hygðist nota reiðvegi á félagssvæði Spretts í þessu skyni. Hinn 3. júlí sl. var athygli framkvæmdastjóra hmf. Spretts vakin á því að búið væri að skipuleggja og auglýsa fjallahjólakeppni á reiðstígum á félagssvæði hmf Spretts. Stjórn og reiðveganefnd hmf. Spretts var gert viðvart og jafnframt var hinn 6. júlí send fyrirspurn á starfsmenn Garðabæjar um keppnina. Svör bárust frá Kára Jónssyni og Guðjóni Erling Friðrikssyni hinn 7. júli um að þeir vissu ekki af þessari keppni og hinn 13. júlí staðfesti Eiríkur Björn Björgvinsson hið sama.
Hinn 14. júlí átti Sverrir Einarsson formaður hmf. Spretts samtal við Einar Bárðarson sem muna vera í forsvari fyrir fyrirhugaðri keppni og greindi honum frá því að það gengi ekki upp að halda keppni af þessum toga á reiðvegum á félagssvæði hmf. Spretts. Einar baðst afsökunar og kvaðst ekki hafa áttað sig á því að þetta væru reiðstígar og lofaði að keppnin yrði færð og ekki höfð á reiðstígum. Sverrir benti Einari á að tala við Halldór Halldórsson formann reiðveganefndar Spretts svo hægt væri að átta sig betur á hvaða stígar væru reiðvegir og hverjir ekki. Hinn 27. júlí fékk Halldór símtal frá manni sem kynnti sig sem Þóri Erlingsson og kvaðst tengjast fyrirhugaðri fjallahjólakeppni. Þórir kvaðst hafa fullan skilning á því að hross fælist hjól, fjölskylda og ættingjar fyrirsvarsmanna keppninnar væru í hestamennsku auk þess hafi hann kynnst því á eigin skinni sem kennari við ferðamálabraut Háskólans á Hólum í Hjaltadal að þetta tvennt færi illa saman. Spurningar Þóris til Halldórs lutu að því hvernig reiðleiðir væru skráðar í kortasjá Landssambands hestamannafélaga. Ekkert var rætt um að hjólakeppnin færi fram á reiðvegum á félagssvæði hmf. Spretts enda búið að lýsa því yfir að hætt hefði verið við að keppnin færi fram á reiðvegum, og að fyrri skipulagning hefði byggst á misskilningi.
Á sama tíma eða þann 12. ág. sl. átti formaður reiðveganefndar Spretts fund með forstöðumanni Áhaldahúss Garðabæjar þar sem farið var yfir merkingar reiðstíga, hvar úrbóta væri þörf, einnig var rætt um að setja upp bannskilti við reiðhjólum á tilteknum stöðum á reiðstígunum.
Áhyggjur hestamanna af reiðhjólum á skilgreindum reiðstígum jókst mjög í því ástandi sem skapaðist af völdum Covid veirunnar sl. vor, líkamsræktarstöðvar, íþróttahús og sundlaugar lokað svo vikum skipti. Sprenging varð í hjólaeign landsmanna sem flykktust í hópum út á reiðstíga í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Fyrir utan slysahættuna af þessu þá myndast rásir í reiðstígana af völdum hjólanna sem vatn rennur um í leysingum og eykur þannig á úrrennsli yfirborðsefnis úr reiðvegunum.
Hesturinn er flóttadýr og hleypur undan því sem hann þekkir ekki (hann fælist) oft með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, fólk er mislangt komið í sinni hestamennsku, bregst misjafnlega við óvæntum atburðum þá má einnig benda á að oft eru börn og unglingar ein á hestum sínum í nágrenni hesthúsahverfa. Þegar hestar fælast illa geta orðið alvarleg slys og því miður eru dæmi um örkumlun og jafnvel dauða í kjölfar þess að hestar hafi fælst.
28. júní sl. varð t.d. mjög alvarlegt slys á Akureyri þar sem hestur fældist reiðhjól og knapi slasaðist alvarlega.
Nú er það svo að mun meira er af göngu- og hjólastígum á höfuðborgarsvæðinu en reiðstígum og því ástæðulaust að samþykkja eða veita leyfi fyrir hjólakeppni á reiðstígum í upplöndum Garðabæjar.
Það er svo að skilja að ofangreind hjólakeppni á vegum Landsnet MTB hefjist við Vífilsstaði og fari eftir reiðvegi meðfram Flóttamannavegi og svo áfram austur Vífilsstaðahlíð, um Hjallaklif í Hjalladal. Á það skal bent að reiðvegur frá Vífilsstaðalæk og austur um Vífilsstaðahlíð er mjög hæð- og hlykkjóttur mikið um blindhorn og hæðir auk þess sem trjágróður byrgir mjög sýn, eins og reyndar er um alla Heiðmörk. Við þannig aðstæður og þar sem reiðhjól eru nánast hljóðlaus og koma að hesti og knapa á fullri ferð, þá telur hesturinn sér ógnað og á enga aðra möguleika en að hlaupa út í hraunið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir hest og knapa.
Félagar í hmf. Andvara og síðar Spretti hafa lagt til mikla sjálfboðavinnu við gerð og uppbyggingu reiðvega í Garðabæ. Vissulega með fjárstuðningi frá Garðabæ og Landssambandi hestamannafélaga.
Ekki þarf að velkjast í vafa um að hestamenn eru ekki hrifnir af þessari leyfisveitingu Garðabæjar. Ekki vegna þess að þeim sé almennt illa við hjólreiðafólk heldur vegna slysahættu sem af þessu skapast. Rétt er að benda á að hestar fælast reiðhjól jafnvel enn frekar en mótorhjól þar sem reiðhjól fara nær hljóðlaust um oft á miklum hraða og þannig án þeirrar viðvörunar sem hávaðasamari fararskjótar gefa frá sér.
Að mati hestamanna er það alvarlegt ef hjólreiðamenn telja sig geta borið virt sveitarfélag, Garðabæ, fyrir heimild sinni til notkunar á reiðvegum. Það að heimila keppni á reiðvegum veldur því að fólk heldur að notkun reiðstíga sé í lagi endranær og mun venja komur sínar á reiðvegina með tilheyrandi slysahættu.
Þá má geta þess að það var sameiginlegur skilningur fulltrúa Landssamtaka hjólreiðafólks (Árna Davíðssonar) og fulltrúa Landssambands hestamannafélaga (Halldórs Halldórssonar) á fundi með Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þann 23. jan. sl. um að reiðhjól og hestar eigi enga samleið.
Landssamband hestamannafélaga ( LH ) er þriðja stærsta sérsamband innan ÍSÍ með rúmlega 12000 iðkendur í 42 hestamannafélögum. Í hmf. Spretti eru skráðir félagsmenn rúmlega 1600, hestamennska flokkast bæði sem keppnisíþrótt og almenningsíþrótt um 90% félagsmanna Spretts stunda hestamennsku sem almenningsíþrótt á reiðvegum á félagssvæði Spretts sem nær yfir Kópavog og Garðabæ.
Hestamannafélagið Sprettur harmar mjög að ekkert samráð hafi verið haft við forráðamenn Spretts vegna þess leyfis sem bæjarráð Garðabæjar hefur veitt Meðbyr ehf til tveggja
almennings íþróttaviðburða, fjallahjólakeppninnar Landsnets MTB og hlaupsins Eldslóðin, í landi Garðabæjar 25. og 26. september 2020. Það hefur ekki heldur borist beiðni frá Garðabæ eða mótshöldurum um að beina viðvörunum til hestamanna sem hugsanlega eru á reiðstígunum á sama tíma og umræddar keppnir eiga að fara fram. Allri ábyrgð vegna hugsanlegra slysa sem kunna að hljótast af keppnum þessum er vísað til Garðabæjar og mótshaldara.
Virðingarfyllst
f.h. hmf. Spretts
Sverrir Einarsson, form. Pétur Örn Sverrisson, varaform.
Halldór Halldórsson, formaður reiðveganefndar, Lilja Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri