Eftir samskipti við Landssamband Hestamannafélaga og í ljósi vandkvæða við að halda reiðhöllum félagsins opnum með þeim fjöldatakmörkunum sem áður voru kynntar hefur stjórn hmf. Spretts ákveðið að loka reiðhöllum félagsins þar til annað verður tilkynnt. Rauð ljós verða sett á hallirnar frá kl 13. laugardaginn 28.mars.
Þessi ákvörðun hefur óneitanlega í för með sér óþægindi fyrir notendur reiðhallanna en ákvörðunin er tekin með ríka almannahagsmuni í huga.
Hér að neðan er orðsending sem formaður Landssambands Hestamannafélaga sendi aðildarfélögum:
„Sæl kæru félagar
Öll stöndum við, þessa dagana, frammi fyrir aðstæðum og ákvörðunum sem við höfum ekki þurft að takast á við áður. Við þær aðstæður er mikilvægt að halda yfirvegun og hlusta á þá sem best vita og er falið að vera leiðandi í þeirri glímu sem við erum í. Þetta mun líða hjá.
Fyrirspurnir hafa borist frá félögum varðandi þau tilmæli sem við í LH sendum frá okkur um lokun reiðhalla. Eðlilega eru skiptar skoðanir á þeirri róttæku aðgerð ef félögin taka þá ákvörðun að loka.
Í reglugerðinni sem við erum að miða við stendur að öll íþróttastarfsemi sé bönnuð. Það er þá þessi spurning hvort við teljum það að þjálfun á hesti sé íþróttastarfsemi? Við viljum vera talin með í hópi íþróttafólks. Það hefur oft verið á brattan að sækja með það en hestaíþróttamaður þarf að þjálfa hest sinn.
Í þessum ólgusjó hefur samstaða Íslendinga verið til fyrirmyndar. Landssamband hestamannafélaga er hluti af ÍSÍ sem leggur mikla áherslu á að fara eftir fyrirmælum fagfólksins. Það er því spurning hvort við teljum rétt, og þess virði, að loka ekki reiðhöllunum tímabundið í samræmi við túlkun ÍSÍ.
Við hjá LH erum í góðu sambandi við ÍSÍ varðandi þau verkefni sem snúa að hreyfingunni í þessum ólgusjó. Við höfum komið okkar tilmælum til ykkar en vissulega er það á ykkar valdi að taka ákvörðunina.
Bestu hestamanna kveðjur
Lárus Ástmar Hannesson, formaður Landssambands hestamannafélaga.“
Stjórn hmf. Spretts tekur undir það sem þarna kemur fram vonast eftir skilningi félagsmanna á þessari ákvörðun og óskar þess þeir að njóti útreiða á meðan á lokun stendur.
Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest
og hleyptu á burt undir loftsins þök.
Hýstu aldrei þinn harm. Það er best.
Að heiman, út, ef þú berst í vök.
Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist,
ei böl sem ei þaggast, ei lund sem ei kætist
við fjörgammsins stoltu og sterku tök.
Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.
(Einar Benediktsson.)
27. mars 2020
Stjórn hmf. Spretts