Eins og félagsmenn sáu hér á heimasíðu Spretts, í kjölfar aðalfundar, hafði öryggisnefnd félagsins tekið saman lista yfir ábendingar sínar og annarra um þætti sem bæta mætti á svæðinu og í reiðhöllum. Nefndin fundaði í síðustu viku ásamt formanni Spretts og þar var ákveðið að leita til Kópavogsbæjar eftir samstarfi um þá þætti er snúa að sveitarfélaginu. Mjög margt þarf að bæta en nefndin er sammála um að byrja á nokkrum atriðum sem teljast brýn. Má þar fyrst nefna illa staðsettan ljósastaur sem skapar hættu, en þegar hefur verið haft samband við verktaka og mun það ekki vera einfalt að fjarlægla staurinn eins og er. Til að bregðast hratt við leggur öryggisnefndin til að staurinn verði klæddur með dekkjum, líkt og gert hefur verið við nokkra skóla í sveitarfélaginu, þar til finna má betri lausn til framtíðar. Málið verður unnið áfram. Einnig mun félagið óska eftir því að grjót sem raðað hefur verið upp til að afmarka kerrustæði og reiðleið frá Heimsenda að Markarvegi verði fjarlægt hið fyrsta og annara leiða leitað til að afmarka svæðið og takmarka umferð bíla þar sem hún á ekki við. Í þriðja lagi telur nefndin mjög mikilvægt að farið verði í framkvæmdir sem miða að því að lækka umferðarhraða á Markarvegi.
Í reiðhöllinni verða tjöld til að skipta höllinni upp í hólf fjarlægð og er unnið að því að hanna aðrar leiðir til að afmarka hólfin, en tjöldin skapa ýmis konar hættu.
Þetta er aðeins upphaf þeirra verkefna sem nefndin í samvinnu við stjórn leggur áherslu á og verður áfram unnið í því að bæta öryggi á félagsvæðinu okkar. Félagsmenn eru hvattir til að senda ábendingar um það sem betur má fara á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..