Í kjölfar banaslyss á hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði sl. vetur skapaðist þung umræða um
öryggismál á félagssvæði Spretts. Svo fór að öryggisnefnd var sett á laggirnar að frumkvæði
nokkura Sprettara í apríl 2019.
Nefndin hefur fundað þrisvar sinnum formlega á þessum tíma auk
þess sem hluti nefndarmanna hefur fundað með reiðveganefnd, framkvæmdastjóra og fulltrúum
annara hestamannafélaga.
Ekki er til formleg lýsing fyrir starfsemi nefndarinnar eða hlutverk innan Spretts og óskar nefndin
eftir því að samstarf milli stjórnar, framvkæmdastjóra, reiðveganefndar og umhverfisnefndar
verði aukið og upplýsingastreymi tryggt til og frá stjórn.
Einnig skortir verulega á upplýsingaflæði frá sveitafélögum, en miklar framkvæmdir á og í
kringum félagssvæðið hafa átt sér stað og hefur ekki verið leitað til nefndarinnar eftir skoðun eða
áliti.
Vissulega eru nefndarmenn ekki faglærðir sérfræðingar í öryggismálum, en eru reiðmenn á
svæðinu og fá að auki ábendingar frá öðrum félagsmönnum. Hægt væri t.d. að auka upplýsingar
til félagsmanna í gegnum facebook eða heimasíðu og þannig vara félagsmenn við, láta vita hvar
framkvæmdir eru í gangi og hversu lengi.
Jóhann Bjarni Skúlason kom á fund nefndarinnar ásamt Baldri Grétarsssyni verkfræðingi í
hönnunardeild Vegagerðarinnar. Báðir eiga sæti í öryggisnefnd hjá Vegagerðinni og starfa þar.
Þeir voru sammála um að víða væri úrbóta þörf á félagssvæði Sprett og næsta nágrenni.
Að frumkvæði Jóhanns Skúlasonar voru sett upp tvö mælitæki til þess að telja ökutæki sem óku
um félagssvæðið. Markmiðið með þessu mælingum var að afla upplýsinga um umferðaþunga og
gegnumstreymi á félagssvæði. Mælingar stóðu yfir í rúmlega 4 vikur á tímabilinu maí-júní 2019.
Tækin voru síðan send sérstaklega til aflestrar en því miður áttu sér stað tæknileg mistök við
aflestur og allar upplýsingar glötuðust. Vegagerðin mun standa aftur að mælingum næsta vor og
þá fást staðfestar tölur, en ljóst er að umferð í gegnum hverfið er mikil.
Baldur Grétarsson lagði fram tillögu varðandi hraðahindranir á félagssvæði. Tillagan fólst í að
breyta hraðahindrun þannig að ekki verði þrenging á akbraut þar sem slíkt veldur því að
ökumaður er ekki að fylgjast með umferð reiðmanna heldur því hvort að annað ökutæki sé á
móti. Einng lagði hann til að breyta fjölda og staðsetningu hraðahindranna á félagssvæði.
Nefndin mælir með því að stjórn taki þau mál til skoðunar. Hraðakstur í gegnum hverfið er orðinn
mjög mikill og algengt að fólk stytti sér leið þar í gegn og aki allt of hratt og án tillits til knapa og
hesta.
Eitt af því sem margir félagsmenn bentu á voru tjöldin í reiðhöllinni og hætta af þeim. Þau hafa
nú verið tekin úr notkun í öryggisskyni en ekki hefur komið fram hvað kemur í staðinn og ekki
verið leitað til nefndarinnar eftir hugmyndum. Æskilegt væri að kynna hugmyndir fyrir
félagsmönnum og fá fram sjónarmið og hugmyndir sem gætu nýst við útfærslu nýrra lausna.
Nefndin fékk fjölmargar ábendingar og kom einnig með sínar eigin athugasemdir og ætlum við að
fara hér yfir þær í stuttu máli:
Hægri réttur er á öllum götum, nema Hlíðarenda, sem enginn virðir, hugsanlega betra að setja
biðskyldu.
Einnig hafa margir nefnt hvort hægt væri að að finna aðra leið um hverfið en að fólk ríði meðfram
Markavegi og þveri hesthúsagöturnar allar – og þar með umferð bíla. Að minnsta kosti að öryggi
við þessa þverun yrði aukið t.d. með biðskyldu, stöðvunarskyldu og/eða minnkuðum hraða inni í
hesthúsagötum.
Merkingum í við og í kringum félagssvæðið er verulega ábótavant. Sameiginlegt átak þarf til þess
að koma þessum málum í farveg og fá bæjarfélögin til þess að sinna sínum skyldum. Merkja þarf
aðkomu að hesthúsahverfunum beggja vegna, vara við ríðandi umferð og hvetja fólk til tillitsemi.
Einnig þarf að merkja reiðvegi skilmerkilega svo ljóst sé að um reiðvegi sé að ræða. Fjölmargir
félagsmenn þekkja það að mæta hjólandi, gangandi og jafnvel akandi umferð á reiðvegum og
geta ekki staðfest að um reiðveg sé að ræða þar sem hann er ekki merktur sem slíkur. Formenn
Öryggis- og Reiðveganefnda hafa fundað vegna þessara mála og eru sammála um að úrbóta sé
þörf.
Þá var bent á steypta kanta sem þvera reiðvegi, en þar hafa orðið slys, t.d. þar sem hross hafa
rekið sig í kantinn og steypst á malbik fyrir framan. Þar þarf að taka kanta niður.
Margar ábendingar komu um ýmis konar rusl sem getur valdið hættu, skyggt á útsýni og fælt
hross.
Gerðar voru athugasemdir við nýjan bílveg frá Kórnum yfir á Markaveg, þar mun vera reiðvegur á
skipulagi, en óljóst er hvernig það verður frágengið og þarf að kynna félagsmönnum.
Þá hefur víða verið bent á hættu þar sem reiðmenn verða að þvera bílvegi til að komast leiðar
sinnar.
Staðsetning ljósastaura hefur verið gagnrýnd á nokkrum stöðum í hverfinu, en illa staðsettir
staurar geta skapað mikla hættu sbr. hið sorglega slys í Sörla.
Mjög margar athugasemdir hafa verið gerðar við grjót sem dreift hefur verið um hverfið t.d. í
kringum hringgerðið neðan við Heimsenda. Grjótið er notað til að hefta bílaumverð m.a. en ljóst
er að þar verður að finna aðrar lausnir, það að setja niður grjót í hesthúsahverfi gengur alls ekki
upp hvað öryggissjónarmið varðar.
Auk þess að óska eftir frekari leiðum til að hægja á umferð í gegnum Markaveg, t.d. með frekari
hraðahindrunum kom líka ósk um einhvers konar hraðahindrun og merkingar við Vífilsstaðaveg
þar sem hestamenn þurfa að fara yfir bílveginn. Þar hefur umferð bíla og hjóla aukist mikið og
öryggi hestamanna skerðst mjög.
Nefndin hefur líka kynnt sér ýmis konar öryggisbúnað s.s. endurskinsvesti og aðrar
endurskinsmerkingar og telur að það gæti verið gott ef félagið leitaði tilboða í slíkan varning fyrir
félaga sína.
Þá hefur nefndin kynnt sér möguleika á styrkjum til forvarnarstarfa, en hægt væri t.d. að sækja
um styrki til skiltagerðar, kaupa á öryggisvestum, gerð fræðsluefnis o.fl.
Ljóst er að fræðslu er mjög ábótavant. Bæði þarf að fræða félagsmenn betur um ýmsar hættur og
öryggisbúnað sem og umferðarreglur og tillit á reiðvegum. Í Spretti stundar fólk á öllum aldri sína
hestamennsku og hér er mikill fjöldi á ferð. Auk þess er verið að vinna með ung hross og alls kyns
hross og alveg ljóst að lifandi skepnur munu bregðast við áreiti og það geta orðið slys.
Einnig þyrfti að fræða nágranna Spretts, sem og skólahópa sem heimsækja hverfið og
Guðmundarlund. Þá væri líka gott að koma á samstarfi og kynningu hjá hjólreiðamönnum og
öðru útivistarfólki. Hægt væri að nýta t.d. bæjarblöð og vefsíður, auk þess sem hugsanlega gæti
verið gott að dreifa kynningarbæklingi í nærliggjandi götur.
Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að fræða þá sem vinna að framkvæmdum á og við
félagssvæðið. Allt of algengt er að þungavinnuvélum og vörubifreiðum sé ekið of hratt, ekið að og
undir hross og jafnvel sturtað af pöllum á meðan hross og menn eru á ferð hjá.
Rétt er að geta þess að Öryggisnefnd hefur ekki haft neina aðkomu né hefur verið leitað til
hennar og óskað umsagnar um framkvæmdir á vegum félagsins svo sem uppsetningu á
ljósastaurum eða grjóti við reiðvegi sem sett hefur verið niður nýlega.
Öryggismál eru lykillinn að farsælli iðkun hestamennskunnar og ljóst að þörf er á átaki í þeim
málum á félagssvæði Spretts. Sum mál lúta að félaginu, önnur að sveitarfélögunum Kópavogi og
Garðabæ og einhver að Vegagerðinni.
Öryggisnefndin afhendir hér með sína samantekt til
stjórnar félagsins til úrvinnslu og áframhaldandi vinnu og býður krafta sína fram í því ferli.
Netfang nefndarinnar er This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og þangað má senda ábendingar.
Kópavogi, 13.11.2019.
Ragna Emilsdóttir
Hulda G. Geirsdóttir
Lilja Sigurðardóttir
Sigurjón Hendriksson
Birgir Hreiðar Björnsson
Kristján Þór Finnsson
Magnús Alfreðsson