Árshátíð Spretts fór fram fyrir fullu húsi í Arnarfelli, veislusal Spetts, laugardagskvöldið 17. nóvember. Hátíðin gekk vonum framar, glæsilegt veisluhlaðborð og viðurkenningar veittar, bæði fyrir keppnisárangur, starfsviðurkenningar og hrossarækt. Happdrætti var með glæsilegum vinningum og dansinn dunaði fram eftir nóttu. Veittar voru viðurkenningar til íþróttakarls og íþróttakonu Spetts 2018.
Í flokki karla var það
Jóhann Kristinn Ragnarsson sem fékk þá viðurkenningu.
Jóhann Kristinn Ragnarsson tók þátt í fjölda móta á árinu. Hæst ber að nefna árangur hans á Landsmóti hestamanna þar sem hann landaði 2.sæti í A-flokki með einkunnina 8.84. Hann var einnig í úrslitum fjölda annarra móta svo sem, Metamóti Spretts, Íslandsmóti, Íþróttamóti Sleipnis, Skeiðleikum, Hetstaþingi Snæfellings, Gæðingamóti Trausta og Smára, úrtöku Geysis, Smára, Trausta og Loga fyrir Landsmót svo fátt eitt sé nefnt.
Í flokki kvenna var það
Brynja Viðarsdóttir sem fékk viðurkenningu. Brynja Viðarsdóttir var sigursæl á árinu. Hún er áhugamaður og tók þátt í fjölda móta bæði innanfélagsmótum og öðrum. Hún sigraði Áhugmannamót Spretts í T4 og einnig Áhugamannamót Íslands í sömu grein. Brynja sigraði Gæðingamót Geysis í B-flokki áhugamanna, og einnig Gæðingamót Spretts í B-flokki áhugamanna. Brynja tók einnig þátt í fjölda móta þar sem hún raðaði sér í efstu sæti svo sem á Íþróttamóti Dreyra, Íþróttamóti Harðar, Kvennatölti, Reykjavíkurmeistaramóti og Áhugamóti Íslands.
Veittar voru þrjár starfsviðurkenningar til félagsmanna sem hafa unnið mikið starf fyrir félagið á undanförnum árum. Þæru hlutu að þessu sinni Lilja Sigurðardóttir, Anna Guðmundsdóttir og Arnhildur Halldórsdóttir.
Lilja Sigurðardóttir hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu fræðslunefndar Spretts um árabil. Lilja hefur haft veg og vanda af uppsetningu námskeiðahalds fyrir börn, unglinga, ungmenni og fullorðna. Úrval námskeiða sem fræðslunefnd stendur fyrir er mikið, og styður við þann breiða hóp sem stundar hestamennsku.
Anna Guðmundsdóttir hefur komið í sjálfboðastarfi og myndað allar helstu keppnir á vegum Spretts. Þessar ljósmyndir eru mikils virði fyrir keppendur og ekki síst mikils virði fyrir félagið. Myndirnar hafa verið settar inná heimasíðu Spretts í lok móta, félaginu að endurgjaldslausu.
Arnhildur Halldórsdóttir hefur unnið að æskulýðsmálum um árabil. Þetta starf er félaginu mikils virði þar sem stutt er við börn og unglinga sem eru að feta sín fyrstu spor í reiðmennsku og keppni. Margir framtíðar knapar stíga sín fyrstu spor í gegnum þetta æskulýðsstarf en mjög vel er að því staðið. Vert er að minnast á að Sprettur hefur hlotið æskulýðsbikar LH fyrir þetta mikla uppbyggingarstarf.
Veitt var Silfurmerki félagsins til Halldórs Halldórssonar sem hefur unnið ötullega að reiðvegagerð fyrir hestamenn. Halldór hefur yfir langan tíma látið sig reiðvegagerð skipta miklu máli, bæði fyrir okkur félagsmenn í Spretti sem og á landsvísu þar sem hann hefur unnið mikið starf fyrir Landssamband hestamannafélaga og hlotið gullmerki samtakanna fyrir.