Aðalfundur Spretts var haldinn 15. nóvember. Fundurinn var vel sóttur.
Úr stjórn gengu, Hermann Vilmundarson, Ragna Emilsdóttir og Sigurður Tyrfingsson. Þau sem sitja áfram í stjórn á komandi vetri 2018-2019 eru, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, formaður, Sverrir Einarsson, Lárus Finnbogason og Auður Stefánsdóttir. Nýir í stjórn eru Margrét Tómasdóttir, Ólafur Karl Eyjólfsson og Kristján Ríkharðsson. Samþykkt var á fundinum að hækka félagsgjaldið í 15.000 kr. Fyrsti stjórnarfundur nýrrar stjórnar verður boðaður í næstu viku. Við þökkum, Hermanni, Rögnu og Sigurði fyrir vel unnin störf.
Á aðalfundi voru veittar viðurkenningar frá stjórn Spretts fyrir
besta keppnisárangur árið 2018 í flokki barna, unglinga og ungmenna. Einnig voru veitt hvatningarverðlaun til barna og unglinga frá reiðkennurum fyrir miklar framfarir í reiðmennsku og ástundun á námskeiðum og útreiðum.
Þau börn sem hlutu hvatningarverðlaun 2018 eru: Hulda Ingadóttir, Þorbjörg H. Sveinbjörnsdóttir, Inga Fanney Hauksdóttir, Arnþór Hugi Snorrason og Þórunn Björgvinsdóttir.
Einnig var veitt sérstök viðurkenning til þriggja ungra knapa sem stóðu sig vel í keppni á árinu en það voru þær Elva Rún Jónsdóttir 10 ára, Ásta Hólmfríður Ríkharðsdóttir 10 ára og Hekla Rán Hannesdóttir 12 ára.
Eftirfarandi einstaklingar voru verðlaunaðir fyrir keppnisárangur á aðalfundinum.
BarnaflokkurDrengur: Ragnar Bjarki Sveinbjörnsson stóð sig best allra drengja í barnaflokki Spretts á árinu. Ragnar Bjarki sem er eingöngu 10 ára varð í 4. sæti á Reykjavíkurmeistaramótinu í T7 og stóð sig einnig vel í fjórgangi. Ragnar Bjarki tók þátt í Íþróttamóti Harðar þar sem hann var í A úrslitum í Tölti. Hann var í 4. Sæti í barnaflokki á Gæðingamóti Spretts og tók einnig þátt í Íslandsmótin yngri flokka bæði í fjórgangi og tölti.
Stúlka: Guðný Dís Jónsdóttir stóð sig best allra stúlkna í barnaflokki á árinu. Guðný Dís keppti á Ás frá Hofsstöðum með góðum árangri. Hún vann á honum Blue Lagoon mótaröðina í fjórgangi, var önnur í fjórgangi á Reykjavíkurmeistaramótinu, og einnig önnur eftir forkeppni á Gæðingamóti Spretts en það mót vann hún svo á Roða frá Margrétarhofi. Guðný Dís og hestur hennar Roði frá Margrétarhofi hafa verið nánast ósigrandi á árinu. Þau eru eru Landsmótssigurvegarar 2018. Guðný er einnig Íslandsmeistari í tölti og vann fjölda annarra smærri móta á árinu.
UnglingaflokkurDrengur:Kristófer Darri Sigurðsson náði bestum árangri þeirra drengja sem kepptu í unglingaflokki á árinu. Hann stóð sig mjög vel síðasta vetur í Meistaradeild æskunnar og einnig á Gæðingamóti Spretts. Á Reykjavíkurmeistaramótinu tók hann þátt í fjölda greina, tölti, fjórgangi, fimmgangi og slaktaumatölti þar sem hann keppti til úrslita með góðum árangri. Kristófer Darri er Íslandsmeistari í fimmgangi 2018, auk þess að vera í 1-2 sæti í slaktaumatölti á sama móti auk annarra greina sem hann tók þátt í og stóð sig með prýði í. Kristófer Darri var valinn fyrir hönd Íslands til að taka þátt í Norðurlandamótinu í Svíþjóð nú í ágúst.
Stúlka: Hulda María Sveinbjörnsdóttir stóð sig best allra stúlkna í unglingaflokki Spretts. Henni gekk vel í Meistaradeild Æskunnar þar sem hún keppti til úrslita í öllum greinum, tölti, fjórgangi og fimmgangi. Huldu Maríu gekk einnig mjög vel á Reykjavíkurmeistaramótinu þar sem hún keppti einnig í tölti, fjórgangi og fimmgangi. Á Landsmóti Hestamanna keppti Hulda María í A-úrslitum og endaði í 8. Sæti. Hulda María tók þátt í fjölda móta á árinu með mjög góðum árangri hvort heldur var á innanfélagsmótum eða á landsvísu.
UngmenniDrengur: Hafþór Hreiðar Birgisson stóð sig feyki vel á árinu. Hann reið sig í A-úrslit bæði í fjórgangi og fimmgangi á geysi sterku Reykjavíkurmeistaramóti. Hann sigraði gæðingamót Spretts í ungmennaflokki og var í fjórða sæti á Landsmóti í sama flokki. Þess má geta að Sprettar áttu þar fjóra fulltrúa af 8 í A úrslitum. Hafþór Hreiðar stundar hestamennskuna af kappi og sýnir af sér fagmannlega reiðmennsku og framkomu bæði innan vallar og utan. Hann er yngri iðkendum góð fyrirmynd.
Stúllka: Bríet Guðmundsdóttir stóð sig best allra stúlkna í flokki ungmenna árinu á hesti sínum Kolfinni frá Efri-Gegnishólum. Hún stóð sig vel á Reykjavíkurmeistaramótinu í vor og einnig á Gæðingamóti Spretts. Bríet var sigurvegari í Tölti á Suðurlandsmóti yngri flokka og reyndi sig í opnum flokki á Metamóti Spretts með góðum árangri.
Bríet toppaði árið með sigur á Landsmóti 2018 í ungmennaflokki þar sem hún undirstrikaði hve magnaður knapi hún er. Bríet stundar hestamennsku af kappi með mikilli ástundun og elju svo eftir er tekið. Bríet er mikil fyrirmynd yngri knapa.