Kæru Sprettarar!
Á aðalfundi Spretts sem haldinn var hinn 15. þ.m. var samþykkt að félagsgjöld fyrir árið 2019 yrðu
eftirfarandi:
Fullorðnir kr. 15.000
Ungmenni kr. 7.000
Öryrkjar kr. 7.000
Vinir Spretts kr. 10.000
Þeir sem fæddir eru á árinu 1952 og fyrr eru gjaldfríir og einnig þeir sem fæddir eru á árinu 2002 og síðar. Fullt félagsgjald hækkar um kr. 2.000, lægra gjaldið hækkar um kr. 1.000 og gjald Vina Spretts hækkar um kr. 6.000, en félagsgjöldin höfðu verið óbreytt frá aðalfundi á árinu 2016.
Á síðustu vikum hefur farið fram heilmikil tiltekt í félagaskránni og félagsmenn sem ekki greiddu félagsgjald síðasta árs hafa verið felldir af félagaskrá. Við viljum hvetja þá hestamenn sem eru á félagssvæði Spretts og ekki eru félagsmenn til þess að gerast félagar, en nú eiga allir gjaldskyldir félagsmenn að hafa fengið innheimtukröfur í heimabankann.
Stjórn félagsins mun á næstu vikum og mánuðum gera gangskör í að fjölga félagsmönnum og höfum við í hyggju að heimsækja hestamenn í hesthúsahverfum á félagssvæðinu og ræða við þá um félagsaðild og starfið hjá okkur. Félagið vinnur að fjölmörgum verkefnum og hagsmunamálum fyrir hestamenn á félagssvæðinu og með fleiri félagsmönnum getum við gert enn betur.
Við viljum vekja sérstaka athygli á félagsaðild í flokknum „Vinir Spretts“, en hér gefst þeim sem áhuga hafa á að styðja við starfsemina, án þess að vera „hefðbundnir félagsmenn“. Hér undir falla t.d. þeir hestamenn á svæðinu sem fæddir eru á árinu 1952 og fyrr, þeir sem ekki stunda hestamennskuna þetta árið, en vilja styðja við félagið og aðrir velunnarar félagsins. Þeir sem vilja gerast „Vinir Spretts“ geta sent óskir um það á netfangið
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og þarf að koma fram nafn og kennitala.
Eindagi félagsgjaldanna er 5. desember n.k. og viljum við hvetja ykkur til þess að greiða þau fyrir þann tíma.
f.h. stjórnar
Lárus Finnbogason,
Gjaldkeri.