Hestamannafélagið Sprettur í Kópavogi og Garðabæ heldur dag íslenska hestsins hátíðlegan í Samskipahöllinni í Kópavogi þriðjudaginn 1. maí nk. kl. 13.

Boðið verður upp á skemmtilega dagskrá fyrir gesti og gangandi þar sem íslenski hesturinn verður í aðalhlutverki.
Knapar sem stundað hafa nám við námsbrautina “Reiðmaðurinn” við Endurmenntun Landbúnaðarháskólans sýna afrakstur vetrarstarfsins í vinnusýningu, fimiverkefnum og munsturreið m.a..
Tugir kvenna sem mynda sýningarhópinn Töltgrúbbuna munu sýna frábært atriði sitt, vel æft og þaulhugsað enda meira en að segja það að ríða flókna munsturreið með tugi hrossa á gólfinu í einu.
Ungir knapar úr Spretti sem hafa verið á Hestamennsku námskeiðum í vetur leika listir sínar og reiðskólarnir Hestalíf og Eðalhestar kynna sumarstarfið 2018, en báðir þessir skólar starfa á Sprettssvæðinu.
Einnig verður teymt undir börnum.
Þá verður boðið upp á grillaðar pylsur frá SS og Svala, auk þess sem Kvennadeild Spretts verður með kaffi og veitingar á staðnum.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir á þennan skemmtilega dag í Spretti.