Nú er allt klárt fyrir veisluna miklu í Samskipahöllinni í kvöld og stefnir í enn eitt snilldarkvöldið. Bekkurinn verður þétt setinn að venju enda miðarnir rokið út og munu gestir njóta þess að sjá tugi glæstra hrossa leika listir sínar.
Þar á meðal má nefnda þrjú snilldarhross, eins og Apollo frá Haukholtum, hinn stórglæsilega Arionsson sem fékk 9,5 fyrir bæði tölt og hægt tölt í fyrra í dómi, sýndur af Daníel Jónssyni. Þá kemur Katla frá Hemlu fram ásamt Árna Birni Pálssyni. Sannkallað hestagull, dóttir Skýrs frá Skálakoti sem er án efa mörgum eftirminnileg frá landsmóti 2016 og síðast en ekki síst mætir knapi ársins, Jakob Svavar Sigurðsson með Konsert frá Hofi, magnaðan gæðing sem allir unnendur íslenska hestsins þekkja til og er í fanta formi þessa dagana.
Það er því sem næst uppselt, en fólk getur athugað með einstaka lausa miða á sölustöðunum, Líflandi, Top Reiter, Ástund, Hestum og mönnum og Baldvini og Þorvaldi.
Húsið opnar klukkan 18 og sýningin sjálf hefst klukkan 20. Veitingar í boði á staðnum að venju, m.a. frá Hamborgarabúllunni. Stóðhestabókin, tæplega 400 síður, bíður gesta við innganginn.
Mynd: Apollo frá Haukholtum. Ljósm.: Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir