Nú er undirbúningur fyrir Stóðhestaveisluna á lokastigi og stefnir í hlaðið veisluborð að venju, en hátíðin fer fram í Samskipahöllinni í Kópavogi annað kvöld, lau. 7. apríl kl. 20.
Garparnir Arion frá Eystra-Fróðholti og Skýr frá Skálakoti hafa nú þegar
skilað ófáum gæðingsefnunum og munu nokkur af þeim bestu koma fyrir sjónir
veislugesta - sannkölluð hestagull þar á ferð!
Unga kynslóðin fær líka sinn sess á veislunni. Þeirra á meðal er Frár frá
Sandhól, fasmikill Lokasonur sem vakti mikla athygli í fyrra fyrir útgeislun og
framgöngu enda fékk hann hvorki meira né minna en fjórar 9,5 fyrir
hæfileika í kynbótadómi.
Annar ungur og efnilegur klárhestur er Herjólfssonurinn Grímur frá
Skógarási. Þessi jarpblesótti foli sýndi hvað í honum býr, bæði á
kynbótabrautinni og íþróttavellinum í fyrra og verður gaman að sjá hvernig
hann kemur undan vetri.
Sigur frá Stóra-Vatnsskarði, sonur ofurhryssunnar Lukku frá
Stóra-Vatnsskarði og Álfs frá Selfossi hefur erft bestu kosti foreldranna
og mun sýna veislugestum nokkur dansspor því til sönnunar.
Það hefur alltaf verið uppselt á veisluna og stefnir í það sama í ár, en enn eru einhverjar miðar eftir, en þeir fara hratt. Miðasala fer fram í verslunum Líflands, Top Reiter, Ástund, Baldvin og Þorvaldi og Hestum og mönnum. Miðaverð er kr. 4.500 og fylgir Stóðhestabókin 2018 með og afhendist á staðnum. Bókin er sú stærsta til þessa, tæpar 400 síður með upplýsingum um rúmlega 300 stóðhesta.
Veðurspáin er góð svo færð ætti ekki að spilla fyrir og fólk að geta streymt að úr öllum áttum. Stóðhestaveilsan er ekki síður mannamót, en hestasýning og þar verður kátt á hjalla. Hittumst hress í veislunni!
Frár frá Sandhól - Mynd: Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir