Stóðhestaveislan mun standa undir nafni næsta laugardagskvöld í Samskipahöllinni og meðal þeirra sem fram koma eru gæðingurinn fljúgandi Glúmur frá Dallandi, alhliða hestur af bestu gerð sem hlotið hefur 8.81 í aðaleinkunn, þar af sex sinnum 9.0 í hæfileikadómi, feiknarlega góður. Knapi á Glúmi er Halldór Guðjónsson sem nýlega var kjörinn besti þjálfarinn í áhugamannadeildinni í hestaíþróttum og nokkuð ljóst að þeir félagar munu mæta í feikna stuði.
Annar flottur, en af allt annarri gerð, er klárhesturinn Boði frá Breiðholti, Gbr. sem Árni Björn Pálsson sýnir. Stórglæsilegur Krákssonur, undan gæðingamóðurinni Hrund frá Torfunesi, hestur sem vakti mikla athygli á síðasta ári og landaði m.a. nokkrum níum í kynbótadómi. Þá má að lokum nefna Glað frá Prestbakka sem Teitur Árnason ætlar að mæta með. Hann er sonur hinnar eftirminnilegu Gleði frá Prestsbakka, hestagulls sem enginn gleymir, og hann gefur móður sinni lítið eftir og á nokkrar níurnar í kynbótadómi líka, hefur hlotið 8.73 í aðaleinkunn. Sagan segir að Glaður sé í rosalegu formi þessa dagana og verður spennandi að sjá hann á veislunni.
Við kynnum fleiri hesta til leiks á næstunni, fylgist með á vefmiðlum og munið að miðasala er í fullum gangi og betra að tryggja sér miða í tíma, enda alltaf verið uppselt á veisluna.
Mynd: Glaður frá Prestsbakka, ljósm. Nicki Pfau