Hin árlega Stóðhestaveisla verður haldin í Samskipahöllinni í Kópavogi á laugardaginn kemur, 7. apríl kl. 20. Þar koma fram að venju, ungir og eldri stóðhestar, vonarstjörnur og reynsluboltar í bland. Heiðurshestur sýningarinnar að þessu sinni er Þóroddur frá Þóroddsstöðum og munu afkomendur hans gleðja gesti, en Þóroddur hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2012.
Þá munu feðgarnir Sjóður frá Kirkjubæ og Kveikur frá Stangarlæk leika listir sínar, auk þess sem afkomendur heiðursverðlaunahryssunnar Hnotu frá Stóra-Hofi mæta til leiks, þeirra á meðal landsmótssigurvegarinn Nói frá Stóra-Hofi og frá Margrétarhofi koma tveir úrvals gæðingar, þeir Brimnir frá Efri-Fitjum og Laxnes frá Lambanesi.
Miðasala er í fullum gangi og fer hún fram í verslunum Líflands, Top Reiter, Ástund, Hestum og mönnum og Baldvini og Þorvaldi. Miðaverð er kr. 4.500, Stóðhestabókin 2018 er innifalin í verðinu og afhendist á sýningunni að venju.
Fleiri hestar verða kynntir til leiks á miðlum hestamanna næstu daga og áhugamenn um hrossarækt hvattir til að fylgjast með.