Nú þegar Metamóti er lokið vil ég koma á framfæri þakklæti til þeirra sem komu að undirbúningi og rekstri þess, þar bar metamótsnefndin hita og þunga. Mótið var nú haldið í fyrsta sinn á hinu nýja vallarsvæði á Kjóavöllum við erfiðar aðstæður á köflum sökum veðurs. En þrátt fyrir það og með hliðsjón af því að fjöldi keppnishrossa var mjög mikill þá fæ ég ekki annað séð en mótið hafi gengið vel. Það þýðir hins vegar ekki að við getum ekki lært af þeim vandamálum sem upp komu og nýtt okkur þá reynslu til að gera betur næst. Við eigum að vera óhrædd að tala um það sem betur má fara ekki síður en hitt.
Rétt er að benda á þrennt sem gert var á þessu móti sem telst til nýmælis og færir hestaíþróttina vonandi fram á við.
- Boðið var upp á þrautakeppni (trek) í fyrsta sinn. Keppendur voru fáir og áhorfendur enn færri en miðað við ánægju beggja hópa trúi ég að þessi keppni sé eitthvað sem við munum sjá meira af í framtíðinni.
- Einkunnagjöf dómara var nú rafræn og fór beint á netið sem var kærkomin nýjung og gerði mögulegt að stytta talnalestur verulega. Var þetta afrakstur mikillar vinnu sérfróðra Sprettara. Er ekki ólíklegt að mótshaldarar muni í framtíðinni vilja nýta sér þetta.
- Þá samdi mótsstjórn við Stöð2 um að sjónvarpa beint frá stórum hluta mótsins og var það gert með myndarbrag. Við hestamenn höfum lengi reynt að koma hestaíþróttinni meira á framfæri í sjónvarpi en með takmörkuðum árangri. Þessi útsending frá mótinu er hins vegar vonandi vísirinn að því sem koma skal. En bein sjónvarpsútsending gerir líka kröfur til allra þeirra sem koma að hestamótum. Þannig þurfa skipuleggjendur að setja dagskrá upp með það í huga og jafnframt sjá til þess að hún gangi eftir í tíma. Þá verða keppendur að vera meðvitaðir um þetta og geta því ekki leyft sér óþarfa tímaeyðslu eins og aðeins bar á um helgina. Þetta allt eigum við að geta lagfært án mikillar fyrirhafnar. Jafnframt verður framkoma okkar hestamanna að vera með þeim hætti að sómi sé að þó hiti færist í leikinn, annars eiga sjónvarpsvélarnar ekkert erindi á hestamannamót. Því verða allir að gera sér grein fyrir.
Ég ítreka að lokum þakkir til allra þeirra sem gerðu þetta mót mögulegt.