Bræðurnir Stefán Sturla og Sigurfinnur Sigurjónssynir komu færandi hendi á skrifstofu Spretts þann 22. nóvember sl. Í minningu föður þeirra, Sigurjóns Valdimarssonar ritstjóra og hestamanns, færðu þeir fyrir hönd aðstandenda, einstakt ritsafn hans á Eiðfaxa allt frá fyrsta tölublaði.
Árið 1977 var Sigurjón einn af stofnendum tímaritsins Eiðfaxa og fyrsti ritstjóri þess. Ljósmyndari var hann góður og því lengi vel aðal ljósmyndari Eiðfaxa og er ljósmyndasafn hans frá þessum árum veglegt og prýða margar mynda hans síður Eiðfaxa. Honum var mikið í mun að dómar og dómstigar í keppnum á íslenska hestinum væru samrýmdir um land allt, sem leiddi til þess að hann var einn af stofnendum gæðingadómarafélagsins og fyrsti formaður þess.
Sigurjón var mikill unnandi íslenska hestsins. Þeir sem þekkja hann frá fyrri tíð skilja varla á milli hans og feðganna Ljúflings og Dýrlings, afburðagæðinga frá Kirkjubæ sem hann tamdi og þjálfaði.
Sigurjón fylgdist allatíð með framgangi hestamennskunnar og á loka árum ævinnar þegar sjúkdómurinn Alzheimer herjaði á hann, leið honum alltaf vel í heimsókn í hesthúsin að heilsa uppá fjórfætta vini sína.