Ágætu Sprettar!
Freymarsfélagið í góðu samstarfi við hmf. Sprett mun á næstu vikum vinna að endurbótum á reiðhöllinni á Hattarvöllum. Ætlun okkar er að endurbæturnar lúti einkum að eftirfarandi þáttum:
* Skipta um gólfefni í höllinni, en núverandi efni verður hreinsað af gólfinu og nýtt efni sett á það.
* Þrífa veggi og bekki í höllinni.
* Hreinsa burt hluta af núverandi trévirki í kringum völlinn og endurnýja það með nýju efni.
* Fá vatnslögn inn í höllina og leggja fyrir köldu vatni.
* Setja upp rotþró fyrir utan höllina og tengja salerni við hana.
* Smíða tvö „hús“ inni í höllinni, þ.e. annar vegar fyrir salerni og hins vegar fyrir kaffiaðstöðu.
Þessi hús yrðu upphituð.
* Annað sem upp kann að koma.
Reiðhöllinni verður því lokað föstudaginn 3. nóvember, (jafnvel frá 2. nóvember) og verður hún lokuð til mánudagsins 11. desember, en á þeim tíma gerum við ráð fyrir að ljúka framkvæmdum. Samskipahöllin verður að sjálfsögðu opin á þessum tíma og verðum við að beina félagsmönnum þangað meðan á framkvæmdum stendur.
Þetta verkefni er að stórum hluta sjálfboðaliðastarf og leitum við eftir þátttöku allra félagsmanna í Spretti til starfans. Því fleiri sem leggja hönd á plóginn, því fyrr munum við ljúka verkefninu, sem við teljum brýnt en mikil verðmæti liggja í Hattarvallahöllinni og mikilvægt að umhirða og viðhald hennar sé sem best.
Við ætlum líka að hafa gaman af þessu, en vinnan mun að langmestu leyti eiga sér stað um helgar, en við munum splæsa í pizzur og e.t.v. eitthvað með þeim.
Hugmyndin er að þeir sem vinna meira en 15 klst. í sjálfboðastarfi fái frían lykil að höllunum í vetur, en við eigum eftir að sjá hvort við getum samið við hmf. Sprett um það.
Við þurfum að fá sjálfboðaliða nú á laugardaginn, þann 4. nóvember, í niðurrif og undirbúning fyrir þrif á höllinni. Við ætlum að byrja kl. 9,00. Við óskum eftir sem flestum til að mæta, karlar og konur, ungir sem gamlir. Allir að taka með sér gleðina og góða skapið, sem og vinnufatnað við hæfi. Þeir sem eiga hamra, kúbein og annað sem getur nýst við niðurrifið endilega takið það með ykkur og ef þið eigið e-ð aukalega af slíku, endilega koma með það líka.
Planið næstu 10 daga eða svo er eftirfarandi:
Fimmtudag og föstdag, moka gólfinu út. Við fáum verktaka í það. Föstudagur, seinni hluti dags, ruslagámar inn í höllina. Laugardagur / sunnudagur, niðurrif á tréverki og undirbúningur fyrir þrif. Sjálfboðaliðarnir. Mánudagur, vatnsbíll mætir með mannskap til þess að spúla höllina. Fimmtudagur, efni inn í höll. Laugardagur / sunnudagar, vinna við smíði á trévirki í kringum völlinn. Sjálfboðaliðarnir.Freymarsfélagið.