Hið sívinsæla og upprunalega Kvennatölt fer fram í Samskipahöllinni í Kópavogi laugardaginn 22. apríl nk. Kvennatöltið markaði tímamót þegar það var fyrst haldið árið 2001 og hefur frá upphafi verið eitt vinsælasta opna töltmót landsins þar sem konur á ýmsum aldri og með mismikla reynslu af keppni finna sér vettvang til keppni á meðal jafningja, í góðum anda og gleði.
Verðlaun og umgjörð hafa alltaf verið mjög vegleg og nú verður þar engin undantekning á, en SIGN hannar verðlaunagripina, auk þess sem fjöldi aukaverðlauna verður í boði ásamt glaðningi fyrir alla þátttakendur. Að venju verður boðið upp á keppni í fjórum styrkleikaflokkum:
1. flokkur – í boði SIGN ( fyrir keppnisvana knapa – en opinn öllum sem vilja)
2. flokkur – í boði Vagna og þjónustu (fyrir knapa sem hafa þó nokkra keppnisreynslu)
3. flokkur – boði Pennans ( fyrir knapa sem hafa litla keppnisreynslu)
4. flokkur – í boði Pixla (fyrir knapa sem eru byrjendur í keppni).
Aldurstakmark er 18 ár (miðað við ungmennaflokkinn).
Hestakonur eru hvattar til að taka daginn frá, nánari upplýsingar varðandi skráningu og fleira verða birtar þegar nær dregur, auk þess sem settur hefur verið upp viðburður á Facebook undir nafninu Kvennatölt Spretts 2017. Endilega meldið ykkur þar inn því þar birtast ýmsar upplýsingar um mótið og fyrirkomulag þess.
Skráning mun hefjast 10. apríl og standa til 16. apríl. Skráningargjald er kr. 5.000 og má skrá fleiri en einn hest til þátttöku, en komi knapi tveimur eða fleiri hestum í úrslit ber honum að velja einn til úrslitakeppni.
Svo nú er bara að byrja að æfa sig – fylgjast með Facebook viðburðinum – og svo sjáumst við í Samskipahöllinni 22. apríl nk.!