Hæsta prófið í ár tók Sprettarinn Arnar Heimir Lárusson á hryssunni Þokkadísi frá Efra Seli en fast á hæla honum var Valdís Björk Guðmundsdóttir á hestinum Sigursveini frá Svignaskarði. Reiðkennari Arnars var Róbert Petersen og tók hann prófið hjá Hestamannafélaginu Spretti en reiðkennari Valdísar var Sindri Sigurðsson og tók hún prófið hjá Sörla í Hafnafirði.
Þessir ungu knapar stóðu sig frábærlega í verklegu reiðprófi og fá af því tilefni sérstaka viðurkenningu frá Háskólanum á Hólum fyrir frammistöðuna.
5. stigs próf Knapamerkjanna samanstendur af margvíslegum fimiæfingum og fjölbreyttu gangtegundaverkefni gerir miklar kröfur til knapa og hests hvað varðar ástundun, vandaða reiðmennsku og gæði gangtegunda og er dæmt af 2 prófdómurum frá Háskólanum á Hólum.
Nú er í fyrsta sinn afhentur sérstakur farandgripur sem gefinn er af Landsambandi hestamannafélaga og Félagi hrossabænda og verður gripurinn, sem gerður var af Helga Björnssyni í Huppahlíð, í varðveislu hjá Arnari Heimi Lárussyni næsta árið.
Þess má geta að þetta er í þriðja sinn sem Háskólinn á Hólum veitir þessa viðurkenningu þeim einstaklingum sem skara fram úr á Knapamerkjastigi 5 í þeim tilgangi að vekja athygli á þeim sem ná góðum árangri, sýna prúðmannlega reiðmennsku og ná valdi á þeim krefjandi verkefnum sem Knapamerkin gera kröfur um.
Í fyrra hlaut viðurkenninguna Anna Kristín Friðriksdóttir en árið 2011 deildu viðurkenningunni Brynja Kristinsdóttir og Ellen María Gunnarsdóttir.
Við óskum þessum efnilegu knöpum hjartanlega til hamingju með frábæran árangur.
Helga Thoroddsen