Landssamband hestamannafélaga og hestamannafélögin í landinu standa saman að hestadögum um helgina. Á laugardag verður skrúðreið um miðbæ Reykjavíkur og á sunnudaginn kemur, 1. maí, verður "Dagur íslenska hestsins" haldinn hátíðlegur um allt land.
Hestamannafélagið Sprettur í Kópavogi og Garðabæ tekur þátt og býður upp á dagskrá í Samskipahöllinni á Kjóavöllum. Allir eru velkomnir og hefst dagskráin kl. 14:00 með sýningu Töltgrúppunar sem er stór hópur Sprettskvenna sem sýnir skemmtilega munsturreið. Að því loknu verður sett upp þrautabraut í hluta hallarinnar og farið yfir hvernig hún er riðin. Hestamönnum býðst svo að koma með hesta og prófa sjálfir í framhaldinu. Og ekki má gleyma hestafótboltanum en ungir hestamenn munu spila fótbolta á hestum sínum með risabolta og má búast við miklu fjöri þar.
Þá verða grillaðar pulsur og reiðskólinn Eðalhestar mun teyma undir börnum auk þess sem boðið verður upp á andlitsmálningu. Eitthvað af hesthúsum á svæðinu verða svo opin gestum þennan dag og verða þau hús merkt sérstaklega.
Dagskráin í Spretti stendur til kl. 16:30 og eru allir hjartanlega velkomnir!
Stjórnin