Líkt og fyrri ár, hefur Hrossarækt ehf. hrint af stað söfnun í tengslum við hinar árlegu Stóðhestaveislur. Að þessu sinni er safnað fyrir tvö félög: Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra og Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna.
Á stóðhestaveislunni sem haldin var sl. laugardag í Samskipahöllinni, barst söfnuninni afar rausnarleg gjöf, þegar forsvarsfólk Aurorusjóðsins tilkynnti um styrk að upphæð fimm milljónir króna sem munu renna inn í söfnunina. Að auki mun Aurorusjóðurinn leggja til krónu fyrir hverja krónu safnast mun með öðrum leiðum, allt að fjórar milljónir króna. Heildarstyrkur til söfnunarinnar getur því numið allt að níu milljónum króna, ef öll markmið nást.
Styrkur þessi er veittur til minningar um Einar Öder Magnússon, hestamann og hrossaræktanda. Einar er öllum unnendum íslenska hestsins hérlendis og erlendis að góðu kunnur eftir áratuga starf á öllum sviðum hestamennskunnar, en hann lést fyrir ríflega ári síðan eftir snarpa baráttu við illvígan sjúkdóm.
Hrossarækt ehf. vill þakka Aurorusjóðnum kærlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf og velvilja til söfnunarinnar. Jafnframt er rétt að minna á að allir sem vilja geta lagt söfnuninni lið með tvenns konar hætti:
- Kaupum á miðum í stóðhestahappdrætti Hrossaræktar þar sem vinningar eru folatollar undir marga af bestu stóðhestum landsins. Miðarnir eru til sölu í öllum hestavöruverslunum og kostar miðinn 1.000 kr.
- Einnig er hægt að leggja inn frjáls framlög til söfnunarinnar á styrktarreikning hennar:
Reikn. 0101-15-383439
Kennitala. 600111-0510
Styrktarsöfnun Hrossaræktar mun standa fram að landsmóti hestamanna, dagana 27. júní til 3. júlí nk. og verður söfnunarfé afhent fulltrúum Krafts og Neistans þar við hátíðlega athöfn.
Hestamenn! Tökum höndum saman og leggjum verðugum málefnum lið.
---x---
[Mynd: Regína Bjarnadóttir frá Aurorasjóðnum afhenti Magnúsi Benediktssyni framlag í söfnunina í minningu Einars Öders Magnússonar.]